Fjórir starfsmenn EFLU sóttu hina árlegu Autodesk-ráðstefnu í San Diego sem sameinaði um 12.000 manns með mismunandi sérhæfingu. Þar voru kynntar nýjustu tækniframfarir, gervigreind og sjálfbærar lausnir fyrir hönnun og byggingariðnaðinn. Ráðstefnan, sem haldin var í október, sýndi hvernig tækni mótar framtíðina.

Hallgrímur Már Hallgrímsson.
Áhersla á nýjungar og gervigreind í hönnunarkerfum
Starfsfólk EFLU sem sótti ráðstefnuna voru Anna Pálína Kristjánsdóttir, tækniteiknari, Hallgrímur Már Hallgrímsson, sérfræðingur í vatnsmiðlum, Harpa Sif Gísladóttir, fyrirliði í teymi lagna og loftræsikerfa og Jón Heiðar Sveinsson, fyrirliði í teymi upplýsingatækni.
Hallgrímur Már Hallgrímsson, sérfræðingur í vatnsmiðlum hjá EFLU, sótti þann hluta ráðstefnunnar þar sem fjallað var ítarlega um gervigreind og flæði upplýsinga milli aðila, líkana og kerfa. „Ráðstefnan einblínir mikið á nýjungar innan Autodesk kerfanna og hvernig notendur nýta sér þau,“ segir Hallgrímur.
Á sviði vatns- og fráveitukerfa voru kynntar ýmsar nýjungar tengdar hugbúnaðarlausnum sem Autodesk hefur fjárfest í undanförnum árum. „Autodesk virðist leggja aukna áherslu á þennan geira þessa dagana,“ bætir Hallgrímur við. Að auki var mikil áhersla lögð á almenna uppfærslu og bætingu á Autodesk kerfunum.
Gervigreind var mikið til umræðu en þó að mestu leyti á háu stigi. Enn er eitthvað í að almennir notendur muni geta nýtt hana beint en þróunin er hröð. Gervigreind mun nýtast bæði til að minnka handavinnu og meta hönnun með því að koma með uppástungur og lagfæringar. „Við getum búist við því að á næstu árum verði miklar breytingar í því hvernig við sem hönnuðir nálgumst hönnunarkerfi,“ segir Hallgrímur.
Þetta er áttunda skiptið sem Hallgrímur sækir þessa ráðstefnu, sem hefur alltaf reynst honum mjög vel bæði varðandi framtíðarinnsýn og lærdóm um nýja hluti. Það er einnig gott að sjá alþjóðlegan samhljóm í vandamálum sem fólk stendur frammi fyrir. Kynni hans við fólk víðs vegar úr heiminum hafa verið verðmæt, þar sem hann hefur getað leitað til þeirra vegna ýmissa áskorana. Stór hluti af kennslu- og aðlögunarverkefnum hans hjá EFLU tengist því sem hann hefur lært á þessum ráðstefnum, sem styrkir bæði EFLU og viðskiptavini fyrirtækisins.


Anna Pálína Kristjánsdóttir.
Ný sýn og spennandi tækifæri
Anna Pálína Kristjánsdóttir, tækniteiknari hjá EFLU, tók nýverið þátt í Autodesk ráðstefnunni þar sem kynntar voru fjölmargar nýjungar á forritum frá Autodesk. Þar var meðal annars fjallað um uppfærslur sem verið er að vinna að og hvernig hægt er að nýta þessi forrit betur saman milli fagsviða. „Það var mikið talað um gervigreind, meðal annars í kvikmyndabransanum, bíla- og byggingaiðnaði,“ segir Anna.
Á ráðstefnunni sótti Anna fyrirlestra þar sem fólk alls staðar að úr heiminum kynnti ný og spennandi verkefni sem þau voru að vinna að og hvernig þau nýttu forritin og tæknina til þess að vinna verkið, minnka kostnað og draga úr villum. „Kynntar voru alls konar aðferðir hvernig gervigreind getur sjálfvirknivætt ferli við gerð líkana og við vinnslu og skil á gögnum,“ útskýrir hún.
Þátttakan á ráðstefnunni hafði mikil áhrif á framtíðarsýn Önnu og störf hennar hjá EFLU. „Maður kemur fullur eldmóði til baka með alls konar spennandi hluti sem manni langar að skoða betur og bæta í núverandi verklagi,“ segir hún með mikilli áherslu.


Harpa Sif Gísladóttir.
Innblástur og nýjungar
Harpa Sif Gísladóttir, fyrirliði í teymi lagna og loftræsikerfa hjá EFLU, sótti nýverið Autodesk University ráðstefnuna sem haldin var í San Diego. Ráðstefnan er á vegum Autodesk og laðar að sér 12.000 þátttakendur ár hvert. Fyrirlesarar alls staðar að úr heiminum veittu innsýn í störf sín og hvernig þeir nota vörur frá Autodesk í sínum daglegu störfum til þess að bæta og straumlínulaga sína vinnu. Helstu iðnaðir sem nota vörur frá Autodesk og tóku þátt eru arkitektar, byggingaverkfræðingar, verktakar, vöruhönnuðir, iðnaðarverkfræðingar, samfélagsverkfræðingar, fjölmiðlun og skemmtanaiðnaðurinn. Ráðstefnan stóð yfir í þrjá daga þar sem hver dagur var fullur af fyrirlestrum frá aðilum alls staðar að sem notast við vörur frá Autodesk í sínu daglega lífi í vinnunni.
Umfjöllun um nýjungar í vörum Autodesk var gagnleg og undirbjó mann fyrir það sem koma skal. „Áhugaverðast var þó að heyra frá öðrum í sömu stöðu og maður sjálfur sem eru að notast við vörurnar og rekast á sömu vandamál og læra af þeim,“ segir Harpa.
Gervigreind var mikið rædd, sérstaklega af starfsfólki Autodesk. Það virðist vera þeirra helsta keppikefli að nýta gervigreind betur til að straumlínulaga hönnun í forritunum sem þeir framleiða. „Allt frá því að koma með tillögur að frumhönnun í að gervigreindarvæða hjálpina inni í forritunum,“ útskýrir hún. Margt af þessu var áhugavert og mun tvímælalaust verða hluti af umhverfi forritanna innan fárra ára.
Þátttaka í ráðstefnunni veitti Hörpu mikinn innblástur. „Þátttakan jók metnað minn fyrir því að EFLA geri betur í BIM-málum og tileinki sér þær nýjungar sem á markaðnum eru svo fyrirtækið dragist ekki aftur úr,“ segir hún ákveðin. Verið er að vinna góða vinnu í BIM-málum hjá EFLU en stefnt er enn lengra í þessum málaflokki eftir ráðstefnuna. Þverfaglegt tilraunaverkefni hefur nú verið sett af stað innan Eflu með Tandem-hugbúnaðinn frá Autodesk, sem margir fyrirlesarar voru byrjaðir að nota og mikið var rætt um á ráðstefnunni. Harpa leggur áherslu á mikilvægi þess að viðhalda metnaðinum sem kviknar við þátttöku á svona stórri ráðstefnu þar sem hægt er að læra af öðrum.
