Starfsfólk EFLU hlaut Teninginn

22.04.2024

Fréttir
Maður tekur við verðlaunum.

Almannavarnir ásamt EFLU og Verkís hlutu Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, á Degi verkfræðinnar á Hótel Reykjavík Nordica í dag. Víðir Reynisson tók á móti Teningnum fyrir hönd Almannavarna en með honum var starfsfólk EFLU og Verkís sem hafa verið í lykilhlutverkum í verkefninu.

Verðlaunagripur.

Leiðigarðar á Reykjanesi

Verkefnið sem um ræðir er bygging leiðigarða til að stýra hraunrennsli og varnargarðar við Grindavík, Svartsengi, háspennulínur og aðra mikilvæga lagnainnviði og er þetta talin vera einstök framkvæmd. „Hönnun þeirra samnýtir þekkingu frá nokkrum fræðasviðum, aðallega jarðtækni, straumfræði, stífluhönnun og eldfjallafræði. Garðarnir eru enn í byggingu en hafa engu að síður nýst til að beina hrauni frá Grindavík í tveimur gosum, auk þess sem varnir við möstur hafa tryggt orkuafhendingu frá Svartsengi,” eins og segir í umsögn dómnefndar.

Í þeim miklu náttúruhamförum eins og hafa verið á Reykjanesi að undanförnu hafa þessir garðar náð að verja að langmestu leyti byggð og mikilvæga innviði. Til eru afar fá dæmi um framkvæmdir sem þessar við sambærilegar aðstæður erlendis og talið er að nýta megi reynsluna og þekkinguna sem hér hefur orðið til víða um heim.

Fjöldi fólks komið að verkefninu

Fyrir hönd EFLU tóku við viðurkenningunni þeir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur, sem sá um vettvangsstjórn, hönnun varnaraðgerða og úrlausna á staðnum. Jónas Þór Ingólfsson, mannvirkjajarðfræðingur, sá um framkvæmdastjórn við byggingu og deilihönnun. Einar Sindri Ólafsson, jarðfræðingur, sá um framkvæmdaeftirlit og jarðfræðiráðgjöf. Páll Bjarnason, byggingaverkfræðingur, sá um þrívíddarmælingar og gerð landlíkana. Þröstur Thor Bragason, hreyfimyndahönnuður, sá um þrívíddarmælingar og myndræna framsetningu gagna. Þá sá Reynir Sævarsson, byggingaverkfræðingur, um verkefnisstjórn veituframkvæmda. Auk þeirrar sem nefndir eru hér á undan komu fleiri sérfræðingar frá flestum sviðum EFLU að þessum verkefnum.

Fyrir hönd Verkís tóku þau Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur, Hörn Hrafnsdóttir vatnsauðlindaverkfræðingur, Arnar Smári Þorvarðarson, Sólveig Kristín Sigurðardóttir byggingarverkfræðingur, Emilía Sól Guðgeirsdóttir, umhverfisverkfræðingur, Rakel Björt Helgadóttir byggingarverkfræðingur, og Andrés Gísli Vigdísarson, byggingartæknifræðingur.

Starfsfólk EFLU óskar öll fólkinu sem kom að þessu verkefni innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Fólk á sviði.