Stelpur og tækni heimsækja EFLU

24.05.2019

Fréttir
A woman giving instruction to two girls who are seated and looking at computer monitors

Stelpur og tækni er haldinn í fimmta skipti og er ætlað að vekja athygli á tækninámi.

EFLA styður við bakið á framtakinu Stelpur og tækni og tók á móti stelpum í fyrirtækið á Norðurlandi og í Reykjavík. Þær fengu innsýn í starfsemina og sögðu konur hjá EFLU frá reynslu sinni af tækni- og verkfræðinámi.

Tækni heimsækja EFLU

Viðburðurinn Stelpur og tækni hefur verið haldinn árlega í fimm skipti og er á vegum Háskólans í Reykjavík, Ský og Samtaka iðnaðarins. Stelpum í 9. bekk er boðið í háskólann og tæknifyrirtæki með það að markmiði að vekja áhuga þeirra á þeim ýmsu möguleikum sem eru fyrir hendi í tækninámi og störfum því tengdu. Þá er ekki síður mikilvægt að brjóta niður staðalmyndir og sýna fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.

EFLA Norðurland tók á móti 20 stelpum af svæðinu þriðjudaginn 21. maí og höfuðstöðvarnar í Reykjavík fékk 25 stelpur úr Ingunnarskóla í heimsókn miðvikudaginn 22. maí. Kvenkyns starfsmenn EFLU tóku á móti stelpunum og sögðu frá því sem þær eru að fást við daglega í starfinu. Stelpunum var skipt upp í nokkra hópa og fengu þær að glíma við verkefni. Meðal þess sem þær gerðu var að mæla aksturshraða í nágrenninu, finna kolefnisspor matarins með aðstoð matarreiknis EFLU, byggja brú úr sykurpúðum og spaghettí og leysa verkefni í tækniteiknun. Stelpurnar stóðu sig með prýði, voru áhugasamar að leysa verkefnin og eflaust eru nokkrar í hópnum framtíðarstarfsmenn á sviði tækni- og verkfræði.

Við þökkum stelpunum fyrir komuna og óskum forsvarsmönnum verkefnisins til hamingju með frábært framtak.