Stelpur, stálp og tækni í EFLU

24.05.2024

Fréttir
Stelpur hlusta á fyrirlestur.

Stelpur, stálp og tækni Nemendur hlusta á fyrirlestur.

EFLA tók þátt í verkefninu Stelpur, stálp og tækni og tók á móti 50 nemendum úr 9. bekk í Öldutúnsskóla og Réttarholtsskóla í gær, fimmtudaginn 23. maí.

Möguleikar á tækninámi og -störfum

Háskólinn í Reykjavík stendur að verkefninu, en markmiðið með því er að vekja áhuga ungra stúlkna og stálpa á möguleikum í tækninámi og -störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim þann fjölbreytileika sem býr í tækniiðnaði.

Starfsfólk EFLU tók á móti 35 nemendum úr Öldutúnsskóla og 15 nemendum úr Réttarholtsskóla í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Lynghálsi 4 í Reykjavík. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, bauð hópinn velkominn og sagði í stuttu máli frá náms- og atvinnuferli sínum, fyrirtækinu EFLU og verkefnum þess.

Þá tóku við fjórar kynningar frá ungum konum sem starfa á mismunandi sviðum EFLU. Það voru þær Ágústa Rún Valdimarsdóttir og Berglind Inga Eggertsdóttir af byggingarsviði, Hulda Kristín Helgadóttir af orkusviði og Guðbjörg Ósk Ellertsdóttir af iðnaðarsviði. Þær lýstu allar sinni skólagöngu og hvernig þær fengu áhuga á því starfi sem þær starfa við í dag.

Starfsfólk EFLU.

Fyrirlesarar Guðbjörg Ósk Ellertsdóttir af iðnaðarsviði, Berglind Inga Eggertsdóttir af byggingarsviði, Hulda Kristín Helgadóttir af orkusviði og Ágústa Rún Valdimarsdóttir af byggingarsviði.

Spreyttu sig á verkefnum

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var hópnum einnig boðið að spreyta sig á þremur ólíkum verkefnum sem komu inn á burðarþolshönnun, vindmælingar og hitamælingar, og lagna- og loftræsikerfi í byggingum.

Gestirnir tóku virkan þátt í verkefnum og samtölum og voru ófeimnar við að spyrja margra áhugaverðra spurninga. Ljóst er að framtíðin er björt og við hjá EFLU hlökkum til að taka á móti fleiri stelpum og stálpum úr námi í tæknitengdum greinum næstu árin.