Stofnleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu

08.05.2020

Fréttir
A close up photo of a person with a bike from a low and back angle

Fyrirhugað er að byggja upp öflugar hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu.

EFLA veitir ráðgjöf vegna uppbyggingar á stofnleiðum fyrir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu en ríki og samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu standa að uppbyggingunni.

Stofnleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu

Samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins var undirritaður í lok september 2019. Sáttmálinn felur í sér sameiginlega stefnu í uppbyggingu samgönguinnviða til fimmtán ára (2019-2033) með fjárfestingu upp á 120 milljarða króna, þar af fari 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Vegagerðin fara með það hlutverk að skipuleggja og framkvæma uppbygginguna í samræmi við sáttmálann.

Í byrjun árs 2020 ákvað hjólahópur SSH og Vegagerðarinnar að hefja vinnu við að kortleggja stofnleiðir fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu til undirbúnings uppbyggingarinnar og var óskað eftir aðstoð EFLU við þá vinnu.

Markmið þessa verkefnis var að ákveða hvaða innviðir (hjólastígar og aðrar lausnir) verða byggðir til ársins 2033 með fjármagni úr sáttmálanum, raða völdum framkvæmdum í og áætla hönnunar- og framkvæmdakostnað fyrir hverja leið eða legg.

Niðurstöður verkefnisins eru fyrstu skrefin í átt að framkvæmdum á stofnleiðum og verða endurskoðaðar reglulega og eftir þörfum.

Stofnleiðirnar sem sýndir eru á hjólaleiðaneti höfuðborgarsvæðisins eru þær leiðir sem teljast ákjósanlegastar sem stofnleiðir og eru flestar stofnleiðir mikilvægar samgönguæðar sem flytja fólk milli heimilis og vinnu eða skóla. Sumar stofnleiðir eru einkum notaðar fyrir útivist og hreyfingu.

A map with various lines representing roads or connections

Hjólaleiðanet höfuðborgarsvæðisins. Á kortinu má sjá stofnleiðir og tengileiðir.

Forgangsröðun einstakra verkefna

Forgangsröðun einstakra uppbyggingarverkefna sem sýnd er á mynd 2 var ákveðin í samráði sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar. Ákvörðunin byggir á eftirfarandi þáttum:

  • Framtíðarsýn sveitarfélaganna á uppbyggingu hjólaleiða og -stíga innan sveitarfélagsins.
  • Uppbyggingu á samgönguleiðum, þ.e. stofnleiðum sem flytja fólk til og frá vinnu eða skóla.
  • Umferðartalningum á fjölda hjólandi frá 2019, bæði úr föstu hjólateljurunum og frá talningum sem fóru fram með færanlegum teljurum í september sama ár.
  • Uppbyggingu Borgarlínu.
  • Heildarmynd hjólaleiðanetsins þar sem markmikið er að tengja saman þá hjólastíga sem nú þegar eru aðskildir frá gangandi umferð.

Næstu skref er að kynna niðurstöður verkefnis fyrir sveitarfélögum og í kjölfarið að verkhanna og framkvæma verkefnin með aðstoð Vegagerðarinnar.

A map with various lines representing roads or connections

Hjólaleiðanet höfuðborgarsvæðisins. Forgangsröðun uppbyggingar stofnleiða 2020-2033.