Stórt samgönguverkefni í Osló

17.04.2019

Fréttir
An image showing roadwork and infrastructure development in progress

Frá framkvæmdarsvæðinu við Ullevål þjóðarleikvanginn. Bráðabirgðarbrúin, rauð á lit, sést fremst á myndinni. Mynd: Ullevaal-Stadion.

Eftir eitt og hálft ár í byggingu eru framkvæmdir á nýrri göngu- og hjólabrú við Ullevål þjóðarleikvanginn í Osló langt á veg komnar. EFLA ásamt samstarfsaðilum vinna verkið fyrir Statens vegvesen, Norsku vegagerðina.

Stórt samgönguverkefni í Osló

Brúin er staðsett í Ullevål hverfinu í norðurhluta Osló, við þjóðarleikvang Norðmanna, og er mikil umferð um svæðið bæði af gangandi og hjólandi vegfarendum. Þá eru einnig mikilvægir innviðir á svæðinu, s.s. Háskólasjúkrahúsið í Osló, Vísindagarðarnir í Osló og stór framhaldsskóli. Nýja brúin kemur í stað bráðabirgðarbrúar sem sett var upp árið 1990 en sú brú uppfyllti ekki lengur þarfir gangandi og hjólandi vegfarenda. Megintilgangur verkefnisins er að bæta umferðaröryggi og aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur við gatnamót Ring 3 og Sognsveien og er verkefnið partur af skipulagðri framtíðaruppbyggingu á almenningssamgöngu- og hjólastígakerfinu í Osló.

Myndband sem sýnir brúna og nærumhverfi

Hönnun nýju brúarinnar er dæmi um eitt verkefni af yfir hundrað samgönguverkefnum sem EFLA verkfræðistofa hefur unnið fyrir Norsku vegagerðina. Verkefnið var að mestu leyti unnið af starfsmönnum EFLU á Íslandi en einnig hefur samgöngusvið EFLU í Noregi, þar sem 14 manns starfa, komið að verkinu en á skrifstofunni í Osló starfa yfir 30 manns. Í myndbandinu sem EFLA vann fyrir verkefnið er hægt að sjá sjá hvernig nýja göngubrúin kemur til með að líta út í umhverfinu.

Hlutverk og verkþættir

Nýja brúin er eitt af stóru samgönguverkefnunum sem eru í gangi í miðbæ Oslóar um þessar mundir. EFLA verkfræðistofa sá um verkfræðihönnun brúarinnar, útfærslu á grunnskipulagi svæðisins og gerð verkgagna. Um er að ræða 400 m langa stálbrú, steypta rampa, göngu og hjólastíga, vatns- og fráveitukerfi, dren, meðhöndlun yfirborðsvatns, raf- og fjarskiptalagnir í jörð, lýsingu, landmótun, jarðtækni, mengunarmælingar og eftirfylgni á framkvæmdatíma. Framkvæmdir hófust haustið 2017 og er áætlað að brúin opni formlega 1. maí næstkomandi.

Sjá einnig verkefnalýsingu.