Styrkir sem nýtast víða í samfélaginu

03.01.2023

Fréttir
The photo shows abstract circular geometrical designs with some texts

Samfélagssjóður EFLU styrkti nokkur verkefni í haustúthlutun sjóðsins fyrir árið 2022. Við fengum fulltrúa þeirra til að segja frá þeim verkefnum sem hafa verið unnin á árinu 2022 og hvernig styrkurinn muni nýtast á nýju ári.

Bætir líf barna

„Okkar föstu verkefni eru að styrkja fátæk börn til náms. Þau búa öll á stöðum þar sem fólk er sérstaklega illa statt. Á þessu ári höfum við farið af stað með frábært verkefni í Kenýa með styrk frá Hringfaranum Kristjáni. Hann borgar fyrir stærðfræðiverkefni í skólanum okkar,“ segir Laufey Birgisdóttir hjá ABC barnahjálp.

Hún bætir við að þessi styrkur, eins og aðrir sem þau fá, muni nýtast einkar vel. „Þessi styrkur bæði hvetur okkur áfram í verkefnum okkar og bætir líf fjölskyldna og barna í Bangladess. Við munum senda matarpakka heim með börnunum í jólafríið þar sem öll börnin í skólanum okkar eru frá mjög fátækum fjölskyldum. Við erum með um 550 börn á heimavist og í skóla þar. Matarverð hefur hækkað mikið sem hefur mikil áhrif á fátækar fjölskyldur á svæðinu,“ segir Laufey og bætir við að á þessu ári hafa þau sett á fót fæðingar- og kvennadeild í norður Úganda og aðstoðað fjölskyldur á flóðasvæðunum í Pakistan.

Á nýju ári bíða svo enn fleiri verkefni ABC barnahjálpar. „Í Pakistan langar okkur að setja á fót fullorðinsfræðslu, byrjum á saumadeild fyrir ungar konur sem hafa ekki fengið menntun. Í Úganda langar okkur að endurbyggja heimavistina í norður Úganda sem er orðin 25 ára og illa farin. Í Bangladess þarf að laga skólpið sem flæðir yfir í hvert sinn sem rigningartíminn kemur. Í Búrkína Fasó langar okkur að byggja kennaraskrifstofu til að bæta aðstöðu starfsfólks við skólann en þar erum við með um 1000 nemendur,“ segir Laufey að lokum.

A smiling woman posing with a young girl in school uniform

Laufey Birgisdóttir ásamt einum nemenda í ABC skólanum í Chennai í Bangladess.

Uppgötva töfra stærðfræðinnar

„Styrkurinn gerir okkur í raun kleift að halda Pangea keppninni gangandi og gefa krökkum um allt land tækifæri til að spreyta sig á skemmtilegum stærðfræðiþrautum og uppgötva töfra hennar,“ segir Muhammed Emin Kizilkaya hjá Pangea, stærðfræðikeppni fyrir nemendur í 8. og 9. bekk. Styrkurinn hefur ekki síður mikla þýðingu í ljósi þess að öll vinna í kringum keppnina er sjálfboðavinna.

Þátttökumet var slegið þegar Pangeukeppnin var haldin síðasta vor. „Rúmlega 4100 manns úr 62 skólum tóku þátt um allt land. Eftir tvær umferðir tóku rúmlega 100 manns úr bæði 8. og 9. bekk í úrslitum keppninnar þar sem þau stóðu sig öll virkilega vel,“ segir Muhammed.

Vegna heimsfaraldursins hefur ekki verið hægt að halda úrslitakeppnina í Menntaskólanum í Hamrahlíð eins og tíðkaðist hjá okkur fyrir faraldur. Það mun breytast á nýju ári. „Til þess þarf þó fjármagn til að útbúa veitingar fyrir bæði krakka og aðstandendur og þá kemur styrkurinn frá EFLU sér vel. Sömuleiðis mun styrkurinn nýtast til að kaupa vegleg verðlaun handa þremur hlutskörpustu nemendunum í hvorum bekk.“

Áttunda Pangea keppnin verður vorið 2023 og skráning hefst um miðjan janúar. „Eins erum við með nýja stærðfræðiáskorun í smíðum sem gegngur út á að ýta undir hópavinnu við lausn stærðfræðidæma. Meira um það síðar. Við hlökkum til komandi samstarfs við kennara og vonum að nemendur hafi gaman af,“ segir Muhammed að lokum.

A large hall filled with rows of students seated at individual desks

Frá Pangea stærðfræðikeppninni.

Við erum rétt að byrja

„Styrkur sem þessi þýðir að Reddingakaffi getur boðið upp á reglulega viðburði, leyft sjálfboðaliðum okkar að njóta sín og boðið þátttakendum viðburða besta mögulegan stuðning þar sem hægt er að útvega efni sem við þurfum til viðgerða á viðburðunum,“ segir Anna De Matos, ein af forsvarsfólki Reddingakaffi sem býður fólki upp á aðstoð og kennslu í því að gera við og endurnýta hluti í stað þess að henda þeim og kaupa nýja.

Hún segir að nýliðið ár hafi verið mjög gott fyrir Reddingakaffi. „Við fengum fjölmiðlaathygli í fyrsta skipti síðan verkefnið hófst og við náum að tryggja traustan hóp fastra sjálfboðaliða, sem okkur þykir mjög vænt um og erum svo ánægð að geta verið með. Okkur hefur líka tekist að fjölga viðburðum utan höfuðborgarsvæðisins, þá helst á Ísafirði þar sem er alltaf fullt á viðburðum okkar. Þannig hefur okkur tekist að spara um 10 tonn af losun CO2 með viðgerðum á þessu ári og við erum rétt að byrja,“ segir Anna.

Til þess að geta aðstoðað og kennt fólki sem sækir viðburðina við að gera við hlutina þarf ýmis efni. „Við munum nota styrkinn til að kaupa efni til viðgerða: víra, efni til dekkjaviðgerða, dúka, ull, lím og annað efni sem við notum til viðgerða. Við munum einnig nota hluta af styrknum í ferðakostnað til að senda sjálfboðaliða til Reddingakaffi-deilda sem hafa nýverið verið stofnaðar víða um Ísland,“ bætir Anna við.

Styrkinn munu þau nota til þess að halda enn fleiri viðburði fyrir fólk víða um landið. „Við vonumst til að geta stutt fleiri verkefni víðsvegar á landinu til að hefja og halda áfram með Reddingakaffi viðburði þeirra. Við stefnum einnig að því að framfylgja „Right to Repair“ herferð okkar til að vekja athygli á viðgerðarrétti til neytenda,“ segir Anna að lokum.

Cartoon illustration of five people engaged in repair activities

Reddingakaffi býður upp á aðstoð og kennslu í því að gera við og endurnýta hluti.