Sumarstarfsfólk | Opnar dyr inn í framtíðina

19.08.2022

Fréttir
A portrait of a young man with short blond hair and beard

Valþór Ingi Karlsson.

„Hér á EFLU hef ég svo fengið mikla og góða leiðsögn og svo meira og meira sjálfstæði og frjálsræði í verkefnum,” segir Valþór Ingi Karlsson einn af sumarstarfsfólki EFLU á Norðurlandi. Valþór Ingi, sem er 25 ára gamall úr Suður-Þingeyjarsýslu en alinn upp á Akureyri, hefur verið sumarstafsmaður hjá EFLU síðustu fjögur sumur.

Sumarstarfsfólk

Valþór hefur á tíma sínum hjá EFLU komið að fjölda verkefna sem flest tengjast loftræsingu. „Ég er búinn að taka mikinn þátt í að gera upp grunnskólana hér á Norðurlandi, Lundarskóla og Glérárskóla,” segir Valþór Ingi en fyrstu þrjú sumrin hjá EFLU leysti hann af í mælingaverkefnum. „Landmælingar fyrir virkjanir eins og Hólsvirkjun, Tjarnavirkjun og Þverárvirkjun, útsetning húsa, gatna eða bara sigmælingar. Fín reynsla í því en svo sem ótengt náminu mínu, tæknilega séð.”

Síðasta sumar vann Valþór í Valsárskóla. „Ég mun einmitt gera mastersverkefni um innivist í skólum nú í haust. Vinnan felst mest í þarfagreiningu, loftmagnsreikningi, stokkaleiðum, CAD-teikningum og skýrslugerðum í meginatriðum,” segir Valþór Ingi og bætir við. „Í sumar hef ég unnið við loftræsihönnun í nýju aðstöðuhúsi í Jarðböðunum á Mývatni sem og í nýrri heilsugæslu sem á að bæta við í Sunnuhlíð sem eru fremur stórt og margþætt verk.”

A room with a partially exposed ceiling revealing ductwork

Skemmtilegt og krefjandi

Valþór Ingi segir að honum hafi gengið vel að takast á við þau verkefni sem honum hafa verið falin hjá EFLU. „Byggingarverkefni eru alltaf margþætt og snúin þannig að sumir dagar eru snúnari en aðrir eins og við má búast en það er líka skemmtilegt og krefjandi sem gerir starfið einnig spennandi,” segir hann og bætir við.

„Í þessum geira þarf að vera ansi jákvæður og áræðinn, hringja endalaust og leysa alls konar vandamál. Endrum og sinnum þarf ég að hringja erfið samtöl en sem sumarstarfsmaður fær maður alltaf hjálp þegar eitthvað kemur upp. Reynslubanki samstarfsmanna er ansi stór og djúpur,” segir Valþór Ingi sem er á því að reynslan hjá EFLU muni nýtast honum vel í framtíðinni. „Þetta hvetur mann áfram í námi, opnar dyr inn í framtíðina, gefur manni reynslu, annað sjónarhorn á svo marga hluti í lífi og námi og svo margt fleira.”

A device that measures temperature being held in someone's hand

EFLA jákvæður og opinn vinnustaður

Hann segir að starfsfólk EFLU hafi tekið honum mjög vel. „Ég hef náð að kynnast starfstöðinni á Norðurlandi mjög vel en það tekur ögn lengri tíma að komast inn í menninguna sem sumarstarfsmaður vegna sumarfría og minni viðveru en gengur og gerist,” útskýrir Valþór. „Annars er EFLA jákvæður og opinn vinnustaður með góðan vinnuanda sem hjálpar mikið í ati verkefna,” bætir hann við.

Valþór Ingi stundar meistaranám í Árósarháskóla með áherslu á innivist, þ.e. lagnahönnun, loftræsing og lausn vandamála tengdum raka og myglu. „Ég tók grunnnámið einnig þar úti samhliða blakferli sem leikmaður fyrst og þjálfari síðar,” segir Valþór sem stefnir á að flytja aftur heim til Íslands eftir útskrift. „Eftir fimm og hálft ár í Danmörku er Ísland farið að toga sterkt í mann virðist vera. Ég vil reyna að finna vinnu en mun líkega taka smá frí áður. Anda smá, slappa af og virða tilveruna aðeins fyrir sér,“ segir Valþór Ingi að lokum.