Verkefnið Get together, sem vinnur að því að rjúfa félagslega einangrun flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd, fékk nýverið styrk úr Samfélagssjóði EFLU. Verkefnið, sem fer fram á bókasöfnum í Hafnarfirði og Kópavogi, hefur frá upphafi skapað jákvæða upplifun fyrir börn og fullorðna.
Mikil þörf fyrir félagsstarf
„Við bjóðum upp á opin hús þar sem þátttakendur geta notið veitinga, tekið þátt í handverki og föndri, og börn fá leikfélaga og örvun,“ segir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, stofnandi GETU - hjálparsamtaka, sem standa að verkefninu.
Verkefnið varð til í apríl 2022, þegar straumur flóttafólks til landsins jókst verulega, meðal annars vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. „Það var mikil þörf fyrir félagsstarf fyrir flóttafólk í Hafnarfirði, þar sem allt slíkt fór fram í Reykjavík,“ útskýrir Ingunn. Hún fékk Hafnarfjarðarbæ, Bókasafn Hafnarfjarðar, Hafnarborg og Hafnarfjarðarkirkju til liðs við sig og varð Get together til sem opið hús fyrir flóttafólk.

Sveigjanlegt verkefni
Frá upphafi hefur verið haldið opið hús að minnsta kosti einu sinni í viku allt árið um kring. Upphaflega fór starfið fram í Hafnarfjarðarkirkju en hefur nú færst yfir á bókasöfn í Hafnarfirði og Kópavogi.
„Verkefnið er í stöðugri þróun og aðlagast þörfum þeirra sem sækja það. Nú á dögum eru gestirnir aðallega fjölskyldur og einstæðar mæður með ung börn, sem oft standa utan leikskólakerfisins,“ segir Ingunn.

Fræðsla og vitundarvakning
Styrkur úr Samfélagssjóði EFLU nýtist til að fjármagna efni, veitingar og leikföng fyrir viðburðina. „Þetta er mikilvægt starf sem styrkir tengsl flóttafólks við samfélagið og skapar sýnileika á almenningssvæðum eins og bókasöfnum,“ segir Ingunn.
Þrátt fyrir að verkefnið sé ekki í stækkunarhugleiðingum núna telur Ingunn að það gæti orðið fyrirmynd annarra sveitarfélaga. „Við sjáum að þetta hefur mikil áhrif og teljum að enn frekari fræðsla og vitundarvakning sé nauðsynleg, bæði til að styðja flóttafólk og til að vinna gegn fordómum í samfélaginu.“
Með Get together er lagður grunnur að sterkari samfélagslegum tengslum, þar sem hlúð er að þeim sem þurfa mest á því að halda.
