Þola jarðstrengir álag frá hraunflæðinu?

09.08.2021

Fréttir
Three individuals wearing high visibility vests working in a deep trench

Vigdís Bjarnadóttir, mannvirkjajarðfræðingur hjá EFLU, hefur unnið að verkefninu við Fagradalsfjall ásamt samstarfsaðilum.

Um þessar mundir fer fram athugun við gosstöðvarnar til að kanna hversu mikið álag jarðstrengir þola af hita og áhlaupi frá hraunflæðinu. Tilgangurinn er að draga lærdóm af tilrauninni sem gæti nýst við sambærilegar aðstæður.

Þola jarðstrengir álag frá hraunflæðinu?

Undanfarið hefur EFLA , ásamt hóp samstarfsaðila, starfað í mynni Nátthaga við gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli. Þar fer fram tilraun sem á að svara því hvað gerist þegar hraun rennur yfir jarðstrengi og aðrar lagnir, t.d. ljósleiðara, rafmagnslagnir og vatnslagnir.

Markmið tilraunarinnar er að kanna hvort jarðstrengirnir þoli hitann og áhlaup frá hraunflæðinu ásamt því að draga af því lærdóm sem getur nýst við sambærilegar aðstæður.

Mælibúnaður hefur verið settur ofan í jarðveginn sem mælir bæði hita frá hrauninu og þunga þess. Einnig hefur mælibúnaði verið komið fyrir í skurði sem er varmaeinangraður á mismunandi vegu t.d. með vikri, steinull og möl.

Niðurstöður tilraunarinnar eru háðar því að hraun renni til suðurs úr Nátthaga og yfir jarðveginn þar sem mælibúnaðurinn er. Með áframhaldandi gosvirkni gæti það gerst á næstu vikum.

Verkefnið er unnið fyrir Almannavarnir og Landsnet í samstarfi við Verkís, Jarðvísindastofnun HÍ, Veðurstofu Íslands, Landsvirkjun, Neyðarlínuna, Rafholt, Tensor, Mílu, Gagnaveituna, Hampiðjuna og Lýsir o.fl.

Sjá einnig frétt frá maí 2021.

Two men working in a large open excavation site

Mælibúnaðurinn ofan í skurðinum er varmaeinangraður á mismunandi vegu.