Tillögur um hagkvæmt húsnæði

22.03.2018

Fréttir
bird's eye view of reykjavik city

Reykjavíkurborg ætlar á næstu árum að úthluta lóðum fyrir um fimm hundruð íbúðir fyrir fólk sem er að kaupa sitt fyrsta húsnæði. Veittur verður afsláttur af lóðaverði og íbúðirnar miðaðar að þörfum þeirra sem geta ekki, eða vilja ekki, leggja mikið fé í eigið húsnæði. Hugmyndaleit að framkvæmd slíkrar byggðar var sett af stað í vetur og sendi EFLA inn nokkrar tillögur, þar af sendu EFLA og Ístak inn sameiginlega tillögu.

Tillögur um hagkvæmt húsnæði

Forsvarsmenn EFLU, Daði Baldur Ottósson og Hafsteinn Helgason, kynntu hugmyndirnar í ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag, 16. mars. Önnur tillaga EFLU snerist um skipulagsmál byggðar og hin tillagan, frá EFLU og Ístaki, fjallaði um byggingaraðferð húsa.

Blönduð byggð og miðlæg bílastæðahús

Tillaga EFLU gengur út að staðsetja miðlægt bílastæðahús ofanjarðar í blandaðari byggð en þannig má hámarka nýtingu fjárfestinga og lækka kostnað bæði á framkvæmdar- og rekstarstigi. Kostnaður við hvert bílastæði í ofanjarðar bílastæðahúsi er mun lægri en kostnaður við hvert bílastæði í bílastæðakjallara. Með því að staðsetja bílastæðahús miðlægt í blandaðri byggð skapast tækifæri til að samnýta bílastæði. Með aukinni samnýtingu er hægt að byggja færri bílastæði þar sem mismunandi starfssemi nýtir bílastæði á ólíkum tímum. Samnýting getur því átt sér stað meðal íbúa á svæðinu og fjölbreyttrar starfsemi t.d. skrifstofu, verslunar og þjónustu.

Miðlæg bílastæðahús geta haft fjölbreytta virkni og sveigjanlega nýtingu um leið og þau geta stuðlað að auknum gæðum nærumhverfisins. Aðstaða fyrir deilibíla og hjól, rafhleðslustöðvar, hjólageymslur og hjólaverkstæði, lifandi jarðhæðir, virkar framhliðar og þakgarðar með útsýni, leiksvæðum o.s.frv. eru allt starfsemi og tækifæri sem falla vel að miðlægum bílastæðahúsum. Ávinningur af slíku fyrirkomulagi byggðar getur verið margþættur og m.a. stuðlað að vistvænni byggð og fjölbreyttu og lifandi borgarumhverfi.

Byggt með forsteyptum einingum

Þá var tillaga um byggingaraðferð EFLU og Ístaks kynnt sem felur í sér að reisa þrívíða einingu á byggingarstað, þar sem forsteyptar gólfplötur frá einingaverksmiðju eru festar saman við súlur á stáli. Byggingarframkvæmdin miðar að því að allir hlutar hússins, gólfplötur, milliveggir, salerni, loft og útveggir eru settir saman úr tilbúnum einingum. Þannig næst fram hagræðing á flutningum byggingarefnis á staðinn, úrgangur minnkar og viðvera iðnaðarmanna verður minni. Þessi byggingaraðferð gerir það að verkum að framkvæmdatími byggingarinnar styttist umtalsvert og lækkar kostnað án þess að rýra gæði framkvæmdanna.

Fyrstu skref tekin í vor

Þess má geta að yfir 70 hugmyndir bárust í hugmyndaleitina og fengu sex forsvarsmenn að gera grein fyrir sínum tillögum á fundinum. Áætlanir Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir því að fyrstu skref verkefnisins verði tekin í vor og verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála.

Nánari upplýsingar: