Tilnefning til Fjöreggs 2019

30.10.2019

Fréttir
A potted plant behind a white framed certificate

Matarspor EFLU fær tilnefningu til Fjöreggs 2019.

Matarspor EFLU, sem sýnir kolefnisspor máltíða, hlaut tilnefningu til Fjöreggs MNÍ sem var veitt í gær á Matvæladeginum 2019.

Tilnefning til Fjöreggs 2019

Árlega veitir Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ), í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI), verðlaun fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla- og næringar. EFLA var tilnefnd til Fjöreggsins ásamt Krónunni, Mjólkursamsölunni, Sandhól og Norðlenska fyrir lofsvert framtak. Vægi umhverfismála í tilnefningum bar ánægjulegt vitni um þróun og áherslur þessarar viðurkenningar.

Yfirskrift Matvæladags MNÍ að þessu sinni var „Hver býr í þínum þörmum? Næring og þarmaflóran“ og voru haldin fjölmörg áhugaverð erindi, m.a. um áhrif næringar á þarmaflóru og heilsu. Þá flutti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ávarp í upphafi dagskrár þar sem sagt var m.a. frá núverandi vinnu við mótun Matvælastefnu Íslands og samspil ólíkra en mikilvægra þátta á borð við lýðheilsu, umhverfisáhrif og innlendrar atvinnuuppbyggingu.

Á Matvæladeginum, sem var haldinn í gær 29. október, var tilkynnt hvaða framtak hafi verið hlutskarpast og var það fyrirtækið Sandhóll sem hlaut Fjöreggið 2019.

Upplýstar ákvarðanir vegna kolefnisspors

Matarspor er þjónustuvefur fyrir mötuneyti og matsölustaði þar sem hægt er að reikna út og bera saman kolefnisspor mismunandi máltíða og rétta. Niðurstöðurnar eru settar fram á skýran máta sem sýnir kolefnisspor máltíða og setur í samhengi við hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda. EFLA lítur þannig á að mikilvægt sé að miðla upplýsingum um áhrif matvæla á loftslagið til að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir, en landbúnaður og sjávarútvegur valda 24% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

EFLA þakkar MNÍ og SI fyrir þennan heiður og er stolt af þessari viðurkenningu á Matarspori sem er ætlað að leggja sitt á vogarskálarnar í loftslagsmálum. Við óskum Sandhól til hamingju með nafnbótina og hinum fyrirtækjunum sem hlutu tilnefningu.

Nánari upplýsingar um Matarspor.