Tryggja öruggan rekstur raforkukerfa

29.10.2024

Fréttir
Maður í pontu.

Fundarstjóri Hjörtur Jóhannsson, rafmagnsverkfræðingur hjá EFLU.

„Málstofan tókst afar vel og fundargestir sýndu málefninu mikinn áhuga, sem endurspeglar mikilvægi þess fyrir orkuskipti á Íslandi,” segir Hjörtur Jóhannsson, rafmagnsverkfræðingur hjá EFLU en hann stýrði pallborðsumræðum á málstofu EFLU á Arctic Circle í ár.

Sérstakar og sérsniðnar lausnir

Málstofa EFLU bar heitið „Ensuring Stable and Reliable Operation of Future Sustainable Power Grids“ og voru þar ræddar áskoranir sem tengjast nýtingu vindorku í litlum og einangruðum orkukerfum eins og því íslenska. „Sérstök áhersla var lögð á hvort íslenska raforkukerfið sé í stakk búið til að taka við þeirri vindorku sem áætlanir gera ráð fyrir. Fundargestir ræddu hvort hægt væri að reiða sig á lausnir, þróaðar fyrir stór og samtengd orkukerfi, til að tryggja öruggan rekstur hérlendis,” segir Hjörtur.

Þrír sérfræðingar tóku þátt í umræðunni, þeir Klaus Skytte, framkvæmdastjóri Nordic Energy Research, prófessor Nicolaos A. Cutululis, frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU) og Gnýr Guðmundsson, kerfisþróunarstjóri Landsnets. Þeir komu m.a. fram með þau sjónarmið að ekki væri eingöngu hægt að treysta á þær lausnir sem þróaðar hafa verið fyrir stærri og samtengd raforkukerfi heldur kalli íslenska kerfið á sérstakar og sérsniðnar lausnir.

„Það er mikilvægt að læra af reynslu annarra í vindorkunýtingu og þróa lausnir aðlagaðar að íslenskum aðstæðum. Einnig var áréttað að styrkingar á flutningskerfum væru nauðsynlegar til að auka rekstraröryggi,” segir Hjörtur.

Hann bætir við að á málstofunni hafi þátttakendur einnig farið yfir reynslu Dana af þróun og innleiðingu vindorku í þeirra raforkukerfum og hvernig þeir hafa náð einstökum árangri við nýtingu vind- og sólarorku. „Þeirra vegferð gaf tilefni til umræðu um möguleika á samstarfi í rannsóknum og þróun á lausnum til að styðja við öruggan og stöðugan rekstur íslenska kerfisins,” útskýrir Hjörtur.

Fólk á málstofu.

Vekja athygli

EFLA hefur verið styrktaraðili og þátttakandi á Arctic Circle frá upphafi enda mikilvægur vettvangur fyrir sérfræðinga til að ræða mikilvæg málefni, og reynslu, læra hvert af öðru og sjá hlutina frá nýju sjónarhorni.

„Málstofur sem þessi gefa EFLU tækifæri til að vekja athygli á brýnum verkfræðilegum úrlausnarefnum og setja á dagskrá mikilvæg málefni fyrir þróun orkukerfisins. Með sérþekkingu sinni getur EFLA stutt Landsnet og aðra aðila í greiningum og þróun á sérsniðnum kerfislausnum, sérstaklega með tilliti til íslenskra aðstæðna,” segir Hjörtur að lokum.