Tuttugu ára afmæli HECLU

31.03.2021

Fréttir
Panoramic view of a densely packed urban area merging into a modern skyline with tall skyscrapers under a cloudy sky

HECLA SAS er ráðgjafarfyrirtæki á sviði raforkuflutnings- og dreifikerfa í Frakklandi.

Franska ráðgjafarfyrirtækið HECLA SAS fagnar tuttugu ára afmæli í dag. Fyrirtækið starfar á sviði raforku- og flutningskerfa og er í eigu EFLU að hluta til.

Tuttugu ára afmæli HECLU

Ráðgjafarfyrirtækið HECLA SAS var stofnað í París þann 31. mars 2001. Félagið var stofnað af Línuhönnun og Afli, sem runnu síðar inn í EFLU, Landsvirkjun og Jean Chauveau, sem verið hefur framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi. Markmiðið með stofnun félagsins var að taka þátt í uppbyggingu og þróun raforkuflutnings- og dreifikerfa í Frakklandi.

Fyrirtækinu óx fljótlega fiskur um hrygg, en verkefnin voru í byrjun að mestu unnin með miklum stuðningi frá Íslandi. Smám saman styrktist þó starfsemi HECLA í Frakklandi, og fluttist verkefnavinnan með tímanum alfarið til Frakklands.

Þungamiðjan í starfsemi HECLA eru rammasamningar við franska landsnetið RTE, þar sem einkum er unnið að hönnun, viðhaldi og endurbótum á raforkuflutningskerfinu um allt Frakkland.

Nú nýverið var nýr rammasamningur frágenginn til a.m.k. fjögurra ára, og styrkti HECLA stöðu sína frá fyrri samningi. HECLA hefur að auki unnið að sambærilegum verkefnum fyrir aðra viðskiptavini bæði í Frakklandi og víða erlendis. Þar starfa nú 15 starfsmenn.

Við óskum HECLU til hamingju með tvítugsamælið!