Tvær vinningstillögur um vistvæna uppbyggingu lóða

22.05.2019

Fréttir
3D model of a building with curved architecture

Vinningstillagan Lifandi landslag fyrir Malarhöfða í Ártúni. Líkanmynd úr vinningstillögu.

Vinningstillögur í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um endurbætt og umhverfisvænna borgarskipulag voru tilkynntar í dag. EFLA, ásamt samstarfsaðilum, átti tvær vinningstillögur fyrir lóðir í Ártúni og Lágmúla.

Tvær vinningstillögur

Samkeppnin sem kallast The Reinventing Cities – C40 er hugsuð sem vettvangur til að hanna svæði og uppbyggingu í þéttbýli þar sem vistvæn hönnun, sjálfbærni og kolefnishlutleysi eru höfð að leiðarljósi í allri hönnuninni. Megináhersla verkefnisins er að takast á við loftslagsbreytingar og leita leiða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með umhverfisvænum nálgunum í hönnun bygginga og jákvæðari umhverfisáhrifum.

Fimmtán borgir víðsvegar að úr heiminum skilgreindu 39 lóðir sem bjóða upp á tækifæri til að umbreyta svæðinu með vistænum og umhverfisvænum máta. Forsvarsmenn keppninnar ásamt samstarfsaðilum buðu arkitektum, verktökum, umhverfissinnum, hverfishópum, frumkvöðlum og listamönnum að taka þátt og leggja fram sína tillögu um að breyta þessum nýju svæðum í sjálfbær og umhverfisvæn svæði sem eftir væri tekið.

Reykjavíkurborg lagði fram þrjár lóðir við Malarhöfða í Ártúni, Frakkastíg og Lágmúla. EFLA var aðili að tveimur teymum sem lögðu fram sínar tillögur fyrir lóðirnar í Ártúni og Lágmúla.

3D model of a multi story building alongside a street with pedestrians and parked car

Vinningstillagan við Lágmúla leggur upp með heilsu og vellíðan íbúa og gesta. Líkanmynd úr vinningstillögu.

Ártún – Lifandi landslag

Tillagan gengur út á nýstárlega nálgun í hönnun þar sem blandað er saman vistvænum lausnum og kolefnishlutleysi til þess að ná fram jákvæðum umhverfisáhrifum af byggingunni og umhverfi hennar. Gert er ráð fyrir lifandi og opnum jarðhæðum og í miðri byggingunni verður vistkerfi með plöntum, gróðri og trjám sem teygir sig út í almenningsrými.

Byggingin verður stærsta timburbygging á landinu og verður hún vottuð með BREEAM vistvottunarkerfinu. Hugað er að vistvænni hönnun byggingarinnar yfir allan vistferil hennar, frá vali á byggingarefnum, rekstri byggingarinnar og til förgunar. Meðal annars er sérstök áhersla á tengsl lóðarinnar við fyrirhugaða Borgarlínu, vistvænar samgöngur, góða orkunýtni og vatnssparnað.

Áhersla í hönnun og notkun byggingarinar er vistvæn nálgun sem styður við heilsu og vellíðan þeirra sem nota bygginguna og umhverfi hennar. Sem liður í því verður á efstu hæð blandað saman grænum þökum og gróðurhúsum í eina flæðandi heild.

Hönnunarteymið sem stendur að tillögunni Living Landscape um byggingarreitinn að Ártúni eru Jakob+Macfarlane, T.ark, EFLA, EOC, Landslag, CNRS, Klasi, Heild, Upphaf og Framkvæmdafélagið Arnarhvoll.

An award ceremony in progress with individuals standing on a stage and a large screen in the background

Lifandi Landslag teymið tók á móti viðurkenningunni í Osló.

Lágmúli – Heilsa og vellíðan

Markmið verkefnisins er að búa til fyrirmyndarbyggingu í Reykjavík sem er kolefnishlutlaus. Byggingin verður BREEAM vottuð. Reykjavíkurborg er með stefnu að allar opinberar byggingar borgarinnar skulu vera BREEAM vottaðar, því er stefna FABRIC hópsins í takt við stefnu borgarinnar. Áherslur BREEAM passa vel við áherslur hönnunarteymisins um kolefnishlutlausa byggingu, orkusparandi byggingu, vistvænt val á byggingarefnum, góðar tengingar til og frá svæðinu með vistvænum samgöngum og fleira.

Tillagan leggur áherslu á vistvæna hönnun, þar sem innivist, minni orkunotkun og kolefnishlutleysi er gert hátt undir höfði. Þá er lögð áhersla á að hanna íbúðir og sameiginleg svæði í anda deilifyrirkomulags, eða co-living og co-sharing. Stefnt er að fullnaðarvottun BREEAM vistvottunarkerfisins. Hjarta byggingarinnar tengir tvær álmur saman og verður nokkurs konar gróðurhús þar sem finna má plönturíki sem teygir sig út í almenningsrými sem opnast til suðurs.

Áhersla í hönnun og notkun byggingarinar er vistvæn og styður við heilsu og vellíðan þeirra sem nota bygginguna og umhverfi hennar. Þar sem að lághitaholur eru innan lóðarinnar er leitast við að fræða þá sem sækja svæðið um sjálfbæra orkunotkun og draga holurnar inn í hönnun útisvæðisins.

Hönnunarteymið FABRIC stendur að tillögunni fyrir lóðina við Lágmúla. FABRIC teymið er skipað af Basalt arkitektum, EFLU, Landmótun og Reginn.

Miðvikudaginn 22. maí voru úrslit samkeppnarinnar kynntar á Urban Future Global Conference í Osló. Það var Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs EFLU, sem tók á móti verðlaununum fyrir hönd EFLU.

An award ceremony in progress with individuals standing on a stage and a large screen in the background

Verðlaunaafhendingin fór fram í Osló. Fabric teymi tekur á móti viðurkenningunni.