Tvöföldun Suðurlandsvegar

03.04.2020

Fréttir
A curved roadway with street lamps and cars

EFLA sá um veghönnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Suðurlandsveg.

Fyrirhugað er að hefja tvöföldun Suðurlandsvegar ásamt því að lengja undirgöng við Krókháls. EFLA sá um alla veghönnun og hönnun undirganga og kemur til með að fylgja verkinu eftir út verktímann.

Tvöföldun Suðurlandsvegar

Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun Suðurlandsvegar frá núverandi vegi rétt sunnan Vesturlandsvegar og suður fyrir Bæjarháls. Tengja á tvöföldun vegarins við núverandi vegyfirborð í báðum endum og auk þess að færa rampa frá Bæjarhálsi til aðlögunar að tvöfölduðum vegi. Þá á að breikka og lengja núverandi undirgöng undir Suðurlandsveg við Krókháls og endurgera stíg í gegnum þau.

Um er að ræða fyrsta flýtiverkið sem boðið er út samkvæmt tímabundnu fjárfestingarátaki Alþingis.

Hönnun í höndum EFLU

EFLA kom að verkefninu og sá m.a. um alla hönnun, þar með talið veghönnun, hönnun veglýsingar og hönnun undirganga ásamt því að sjá um gerð útboðs- og verklýsingar. Þá kemur EFLA til með að fylgja verkinu eftir út verktímann en gert er ráð fyrir að verklok verði eigi síðar en 1. nóvember 2020.

Nánar um tvöföldun vegarins

Tvöföldun Suðurlandsvegar í fjórar akreinar á útboðskaflanum. Um er að ræða uppbyggingu á nýrri eystri akbraut vegarins. Vegrið kemur í austurkanti axlar nýrrar akbrautar og í báðar axlir í miðdeili. Götuýsing og hliðarniðurföll verða sett í miðdeili akbrauta. Skeringar, jarðvegsskipti og gerð stofnlagna við vegstæðið var að stærstum hluta lokið fyrir mörgum árum síðan.

Nánar um steypt undirgöng

Núverandi undirgöng við Krókháls verða breikkuð til norðurs og lengd til austurs. Göngin lengjast til að ná undir nýja akbraut Suðurlandsvegar og þau breikka til norðurs til að hægt verði koma fyrir breiðum og greiðfærum göngu- og hjólastíg í stað núverandi gangstéttar. Stígurinn er stofnstígur í hjólaleiðakerfinu. Ásýnd ganganna að vestan og austan verður með svipuðu sniði í verklok og nú er, þ.e. bogaformaðir stoðveggir af breytilegri hæð er sveigja frá Krókhálsi.

A road with cars and grassy embankment in the foreground

Undirgöngin við Krókháls verða bæði breikkuð og lengd.