Um endurvinnslu plasts og áskoranir í meðhöndlun

12.02.2019

Blogg
Hönd að setja plastflösku í plastrusl, flokkað

Líttu í kringum í þig, sérðu plast? Það er mjög líklegt. Það er plast í tölvuskjánum sem þú ert að horfa á, það er líklega plast í stólnum sem þú situr í, í pennanum á borðinu og líklega í fötunum sem þú ert í. Plast er nánast órjúfanlegur hluti af daglegu lífi í nútíma samfélögum mannsins. En hvað er plast og hvaðan kemur það?

Sjö flokkar plasts

Plast er mótanlegt efni sem er samsett úr mörgum litlum sameindum sem raðast saman og mynda fjölliður (e. polymers). Fjölliður eru til í náttúrunni en þær manngerðu eru flóknari og eru í langflestum tilfellum búnar til úr jarðefnaeldsneyti, þ.e. hráolíu og jarðgasi. Plast var fyrst búið til á 19. öld en tækniþróun og eftirspurn eftir efnum til að leysa náttúruleg efni af hólmi dreif áfram þróunina á plasti og um miðja 20. öldina hófst því plastframleiðsla af miklum krafti.

Plasti er skipt upp í sjö flokka samkvæmt RIC kerfinu (e: Resin Identification Codes) sem í stuttu máli skiptir umbúðum upp í flokka eftir því hvaða plastefnum þau eru gerð úr. Þetta kerfi var tekið í notkun árið 1988 í Bandaríkjunum til að aðstoða móttökuaðila á úrgangi við flokkun á mismunandi drykkjarflöskum úr plasti og var upprunalega ekki ætlað neytandanum. Kerfið breiddist mjög hratt út og á nokkrum árum voru plastframleiðendur farnir að nota þessa flokkun á alls kyns umbúðir og vörur.

Sjö flokkar plasts samkvæmt RIC kerfinu

Plastflokkun samkvæmt RIC kerfinu.

Hversu mikið af plasti er endurunnið?

Plastframleiðsla notar 4-8% af allri hráolíu og gasi sem notað er í heiminum. Á heimsvísu er eingöngu 15% úrgangsplasts safnað til efnisendurvinnslu og 25% er brennt. Í sumum tilfellum er hægt að nota orkuna frá brunanum til húshitunar og rafmagnsframleiðslu og er þá oft talað um orkuendurvinnslu. Afgangurinn af úrgangsplastinu, um 60%, fer í urðun, endar úti í náttúrunni eða fer í aðra farvegi. Í ársskýrslu Úrvinnslusjóðs frá árinu 2016 kemur fram að endurvinnsluhlutfall plasts á Íslandi var 35% og er þá verið að taka heyrúlluplast, innfluttar plastumbúðir og innlenda framleiðslu inn í myndina. 5% fóru í orkuvinnslu og afgangurinn í urðun eða var enn í notkun.

Af þeim plasttegundum sem safnað er til efnisendurvinnslu á heimsvísu eru PET (1) og HDPE (2) umbúðir langoftast endurunnar (19-85% endurvinnslu­hlutfall, fer eftir löndum) á meðan endurvinnsluhlutfall PP (5) og PS (6) er einungis í kringum 20% að hámarki.

Plastframleiðsla á heimsvísu náði 335 milljón tonnum árið 2016 og mun vaxa um 4% árlega samkvæmt nýjustu spám. Til að átta sig á þessari stærðargráðu þá var heildarafli íslenskra skipa 1,3 milljón tonn á fiskveiðiárinu 2017/2018. Það er á við 0,4% af allri plastframleiðslu í heiminum.

Endurvinnslumerki

Endurvinnslutáknið gefur til kynna að hægt sé að endurvinna vöru en ekki að varan endi í endurvinnslu.

Hafa merkin einhverja þýðingu?

Lítum nú aðeins á plastflokkunina og númeramerkingu plastefna. Þessir sjö flokkar eru oft settir á umbúðir sem við notum í daglegu lífi, en stundum ekki. Örvarnar sem mynda þríhyrning utan um númerin minna á þekkt endurvinnslutákn sem á að gefa til kynna að viðkomandi umbúðir/vöru sé fræðilega hægt að endurvinna. Hins vegar gefur það ekki neina staðfestingu á því að efnið endi í endurvinnslu. Þegar prósentuhlutfall sést inni í þríhyrningi merkisins gefur það upplýsingar um hversu mikill hluti af efninu sé úr endurunnu hráefni.

Fleiri sambærileg tákn eru notuð til merkingar á vörum en staðreyndin er sú að þetta merki og önnur geta ekki gefið neina vissu fyrir því hvað verður um viðkomandi vöru eftir að við losum okkur við hana á endurvinnslustöð. Það er nefnilega mismunandi eftir löndum, endurvinnslutækni, efnahagslegum hvötum og mörgum öðrum þáttum hvað verður um vöruna. Í tilfelli númeramerkingu plastefnanna hafa þessar örvar enga beina merkingu með tilliti til endurvinnslu þ.e. hvort og hvernig viðkomandi plast verður mögulega endurunnið.

Flokkum plast og drögum úr notkun á vörum sem eru einnota, t.d. úr plasti.

Á ég þá að flokka eða ekki?

Umhverfisvitund Íslendinga hefur batnað til muna á síðastliðnum árum með breyttu neyslumynstri, aukinni flokkun á úrgangi og meðvitaðri ákvarðanatöku um hvernig við hegðum okkur. En betur má ef duga skal. Við verðum fyrst að draga úr notkun á einnota vörum til að mynda úr plasti. Fyrir það plast sem síðan fellur til, tekur það því þá að flokka ef endurvinnsla er háð svona mikilli óvissu eins og kemur fram að ofan? Já, það tekur því. Af hverju?

  • Af því að þegar við flokkum þá útvegum við efni sem í mörgum tilfellum er hægt að búa til einhver verðmæti úr, með efnisendurvinnslu eða orkuendurvinnslu.
  • Af því að þá minnkum við magn úrgangs sem endar í urðun, og það kostar töluverða peninga og landsvæði að urða efni sem væri hægt að nýta annars staðar.
  • Af því að með því að flokka þá ýtum við undir sambærilega hegðun annars staðar, hjá okkur sjálfum og öðrum, við förum að hugsa og hegða okkur öðruvísi, umhverfinu og samfélaginu til bóta.

Starfsfólk af samfélagssviði EFLU skrifaði greinina. Aðalhöfundur er Börkur Smári Kristinsson.