Um snjóflóðavarnir

21.01.2020

Blogg
Ljósmynd af leiðigörðum á Siglufirði í fjallshlíð, sést í nokkur hús úr bænum.

Myndin sýnir leiðigarða á Siglufirði.

Nýverið skullu tvö snjóflóð á varnargarðana á Flateyri og þá féll einnig flóð sem skapaði flóðbylgju sem gekk á land á Suðureyri við Súgandafjörð. Að auki hafa minni flóð fallið og hamlað umferð um vegi landsins. Þetta hefur skapað nokkra umræðu um snjóflóð og snjóflóðavarnir. Rætt hefur verið um að hrinda þurfi strax í framkvæmd þeim aðgerðum sem eftir eru til að verja þá staði sem enn búa við ógn af völdum snjóflóða og veita þurfi peningum, sem sannarlega hafa verið lagðir inn í Ofanflóðasjóð, til þeirra verkefna. Í ljósi þessara umræðna er rétt að staldra aðeins við og fara yfir ferlið sem bygging slíkra varnarmannvirkja er. Þó að peningar séu til staðar er nefnilega ekki bara hægt að byrja strax að moka upp varnargörðum.

Hættumat framkvæmt

Uppbygging snjó- og ofanflóðavarna er ákveðið ferli sem samanstendur af mörgum þáttum. Fyrsta skrefið er að meta hættuna af ofanflóðum á hverjum stað fyrir sig. Skipuð er sérstök hættumatsnefnd fyrir hvert sveitarfélag sem sér um að láta gera hættumat. Það er Veðurstofa Íslands sem sér um að gera hættumatið. Hættumatið þarf síðan að kynna og staðfesta af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Fara verður í gegnum ákveðið ferli sem samanstendur af mörgum þáttum við uppbyggingu snjó- og ofanflóðavarna. Slík vinna getur tekið nokkur ár.

Frumathugun og forhönnun

Þegar hættumatið hefur verið samþykkt hefst vinna við frumathugun og forhönnun mannvirkjanna. Um getur verið að ræða varnargarða eða upptakastoðvirki eða blanda af þessu tvennu. Varnargarðar geta verið þvergarðar eða leiðigarðar og er ætlað að stöðva flóð eða beina því fram hjá byggð. Upptakastoðvirkjum er ætlað að hamla því að snjór fari af stað í upptakasvæðum snjóflóða. Um þessa hönnun sjá snjótæknisérfræðingar. Niðurstaða þessarar vinnu veita upplýsingar um hvar þurfi að staðsetja varnarvirkin, hver hæð og lögun þeirra þarf að vera og að tryggt sé að aðstæður séu með þeim hætti að hægt sé að reisa þau. Samhliða þessu er einnig unnið mat á mögulegum mótvægisaðgerðum vegna aðgerðanna því gerð snjóflóðavarnargarða getur verið gífurlegt inngrip í landslag og náttúrufar svæða. Öll þessi vinna getur verið tímafrek og tekur jafnvel nokkur ár.

Varnargarðar geta verið þvergarðar eða leiðigarðar og er ætlað að stöðva flóð eða beina því fram hjá byggð.

Mat á umhverfisáhrifum

Þegar staðsetning varnargarða og umfang aðgerða liggur fyrir þarf oftast að fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Það mat tekur á áhrifum framkvæmda á alla mögulega þætti, allt frá félagslegum áhrifum til varpsvæða fugla eða sjaldgæfra plantna, sem hugsanlega verða framkvæmdum að bráð. Umhverfismat tekur að jafnaði um eitt ár. Samhliða þessu þarf síðan oftast að fara í breytingar á skipulagi og það er ákveðið ferli sem tekur sinn tíma.

Ljósmynd af þvergörðum á Siglufirði í gróinni fjallshlíð

Oftast fer fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Mynd sýnir þvergarða á Siglufirði.

Verkhönnun og útfærsla

Þegar umhverfismati og forhönnun er lokið er hægt að byrja verkhönnun. Verkhönnun felur í sér að finna þarf út hvernig þau mannvirki sem reisa þarf geta staðið undir sjálfum sér og því álagi sem á þeim lendir. Einnig eru í verkhönnun útfærðar nánar þær mótvægisaðgerðir sem ráðast þarf í til að mannvirkin falli sem best að landinu og verði eins aðlaðandi fyrir íbúa og kostur er. Ekki er óalgengt að verkhönnun taki um hálft til eitt ár.

Ljósmynd af þvergarði í Bolungarvík frá fjalli og niður í bæ.

Varnargarðar eru oft og tíðum gríðarlega stór mannvirki. Mynd sýnir þvergarð í Bolungarvík.

Framkvæmdir, eftirlit og viðhald

Þegar verkhönnun er lokið er fyrst hægt að fara að stinga niður skóflum og hefja framkvæmdir. Framkvæmdir við snjóflóðavarnargarða geta tekið 2-3 ár, jafnvel lengur, og svo tekur uppgræðsla svæðisins lengri tíma.

Þegar framkvæmdum og uppgræðslu svæðis er lokið er sagan ekki endilega öll sögð. Þessi mannvirki eru hönnuð til að standa í a.m.k hundrað ár. Þessi oft á tíðum gríðarlegu mannvirki þurfa því sitt viðhald og eftirlit. Þess vegna er mikilvægt að tryggja fjármagn frá hinu opinbera til að standa straum af þeim kostnaði því oft eru varnargarðarnir í litlum sveitarfélögum, sem ekki eru í stakk búin til að fjármagna slíkt.

Hér hefur verið farið yfir ferlið sem þarf að fylgja þegar reisa á snjóflóðamannvirki. Mikilvægt er að átta sig á að þetta getur verið langt og strangt ferli og kálið er ekkert endilega sopið þótt að búið sé að útvega fjármagn til framkvæmdanna.