Umfangsmikill rammasamningur í Noregi

31.03.2021

Fréttir
A curving pedestrian bridge at dusk with the lights of a city in the background

Göngu- og hjólabrú við Ullevaal | Osló. Ljósmynd: Nils Petter Dale

EFLA hefur verið valin inn í 13 milljarða rammasamning við norsku vegagerðina, Statens vegvesen, en allar stærstu verkfræðistofur Norðurlandanna buðu í samninginn.

Umfangsmikill rammasamningur í Noregi

Um er að ræða afar umfangsmikinn rammasamning í Noregi um almenna ráðgjöf og verkfræðiþjónustu í samgöngutengdum verkefnum t.d. deiliskipulagi, hönnun og gerð útboðsgagna ásamt eftirliti með framkvæmdum á byggingarstigi. Samningurinn gildir næstu tvö árin með möguleika á framlengingu til tveggja ára.

Headshot of a man

Hörð samkeppni frá stærstu verkfræðistofum Norðurlandanna

Allar stærstu verkfræðistofur starfandi við ráðgjöf í samgöngum í Noregi kepptust um hlutdeild í samningnum og bárust norsku vegagerðinni, Statens vegvesen, 13 tilboð í samninginn. Eftir ítarlegt mat á hæfni og verði bjóðenda var samið við sjö verkfræðistofur og var EFLA í Noregi meðal þeirra. „Áætlað umfang samningsins er að hámarki 880 m.nkr. á 4 árum, eða um 13 milljarðar íslenskra króna, sem deilist niður á þau fyrirtæki sem samið var við. Fyrir okkur í EFLU gæti því verið um að ræða rammasamning upp á allt að 30 m.nkr. á ári, sem er tæplega hálfur milljarður íslenskra króna, í fjögur ár.“ segir Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri EFLU AS í Noregi (mynd til hægri). Heilmikið átak í innviðauppbyggingu er fyrirhugað hjá Statens vegvesen næstu árin „Í mars lagði norska ríkið fyrir samgönguáætlun fyrir næstu 12 ár sem gerir ráð fyrir fjárframlagi upp á tæplega 1100 milljarða n.kr. til samgöngumála.“ segir Ragnar en ríkið ráðgerir að byggja upp vegi, brýr, göngustíga, jarðgöng og önnur ný mannvirki sem og að viðhalda núverandi innviðum.

EFLA metin hæfust í öðrum rammasamningi

Auk ofangreinds rammasamnings við Statens vegvesen gerði EFLA nýverið rammasamning í samgöngumálum við fylkið Vestfold og Telemark, sem er í suðurhluta Noregs með um 420 þúsund íbúa. Samningurinn felur í sér ráðgjafar- og hönnunarverkefni á sviði samgangna, t.d. gerð frumdraga, deiliskipulaga, for- og fullnaðarhönnun ásamt gerð útboðsgagna. Tíu stærstu verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækin í Noregi buðu í rammasamninginn við fylkið en eftir hæfnismat var EFLA í efsta sæti varðandi heildarmat á grundvelli hæfni og verðs. Meðal annars var metin fagleg hæfni og reynsla verkefnisstjóra í samgöngum og leiðandi aðila á níu fagsviðum í samgöngumálum og fékk EFLA næsthæsta hæfnisskor fyrirtækjanna tíu. Rammasamningurinn við Vestfold og Telemark fylki gildir í 4 ár og er heildarverðmæti hans fyrir EFLU um 5-7 m.nkr á ári.

Staðfesting á traustu orðspori EFLU í Noregi

Þessi eftirtektarverði árangur veitir staðfestu á þeirri miklu fagþekkingu og sérhæfðri reynslu sem starfsfólk EFLU á Íslandi og í Noregi hefur varðandi verkefnastýringu, ráðgjöf og hönnun í samgöngutengdum verkefnum. Eftir uppbyggingu síðustu ára starfa nú hjá EFLU um 20 ráðgjafar á samgöngusviði í Osló og eru samgönguverkefni þar leyst í nánu samstarfi við starfsfólk EFLU á Íslandi. „Við höfum unnið að fjölmörgum krefjandi verkefnum í Noregi og meðal nýlegra verkefna er verkfræðihönnun á nýrri göngu- og hjólabrú við þjóðarleikvanginn Ullevaal í Osló sem bætir umferðaröryggi hjólandi og gangandi vegfarenda til muna. Þessi rammasamningur kemur til með að styrkja starfsemi samgönguhluta EFLU í Noregi enn frekar og höfum við áform um að bæta fleiri starfsmönnum í hópinn á næstunni.“ segir Ragnar og bætir við að spennandi tækifæri séu fyrir íslenskt starfsfólk að vinna í bæði íslenskum og erlendum verkefnum án þess að þurfa að flytja frá heimahögum. „Reynsla síðustu mánaða hefur sýnt okkur að störf án staðsetninga er það sem koma skal í enn frekari mæli en áður.“ segir Ragnar að lokum.