Umferðaröryggi skólabarna

23.08.2023

Blogg
Gangbraut í Reykjavík, börn að fara yfir og bíll stöðvar fyrir þeim

Umferðaröryggi snýst að miklu leyti um hegðun íbúa í umferðinni en einnig upplifun þeirra af varasömum stöðum.

Almennt um öryggi barna í umferðinni

Kortlagningin varasamra staða og hindrana í gatnakerfinu er mikilvægur grundvöllur fyrir skipulagningu sveitarfélaga og er sú athugun framkvæmd meðal annars með skrásetningu og greiningu umferðarslysa, athugun á göngu- og hjólaleiðum skólabarna og samráði við íbúa og hagsmunaaðila.1

Sérstaklega mikilvægt er að taka tillit til barna þegar kemur að umferðaröryggismálum. Áhyggjur foreldra af börnum í umferðinni getur leitt til þess að takmarkanir eru settar á sjálfstæði þeirra til að ferðast sjálf.2 Þó verður að hafa ákveðin atriði í huga þegar kemur að öryggi barna í umferðinni. Ekki er hægt að setja sömu kröfur á börn og fullorðið fólk þegar kemur að því að sýna „örugga“ hegðun í umferðinni. Yngsti hópurinn er til dæmis ekki með nægilegan þroska til að læra og skilja umferðarreglur eða skilti. Einnig eru þau ekki með fullþroskaða sjón eða heyrn og geta ekki dæmt fjarlægðir og hraða eins vel og eldri einstaklingur.3 Sökum þroska er heldur ekki hægt að ætlast til þess að þau hafi alltaf fulla athygli á umferðinni.2 Þau eru lægri sem takmarkar yfirsýn þeirra og gerir það að verkum að erfiðara er fyrir ökumenn að sjá börn. Þetta getur skapað hættu til dæmis þegar ökutæki bakkar úr bílastæðum. Rannsóknir benda til þess að slys þar sem ekið er á gangandi eða hjólandi börn leiði til alvarlegri meiðsla en ef ekið er á fullorðinn einstakling.4 Börn eru einnig í meiri hættu i sem farþegar ökutækja sem lenda í árekstri og því er mikilvægt að nota réttan öryggisbúnað og skapa umhverfi sem lágmarkar hættu fyrir yngstu vegfarendahópana.

Flestir foreldrar hafa áhyggjur af börnum sínum á leið í skólann. Staðreyndin er sú að oft og tíðum skapast hættulegar aðstæður umhverfis skóla vegna foreldra sem eru að keyra börnin sín. Foreldrarnir eru varkárir þegar þeirra börnum er skutlað í skólann, en gleyma sér svo þegar því er lokið og „flýta sér“ í burtu frá skólanum, sem skapar þá hættu fyrir önnur börn. Vegna þessa kjósa fleiri foreldrar að skutla börnum sínum í skólann og þannig skapast ákveðinn vítahringur.5

Í könnun frá Svíþjóð kom í ljós að margar ástæður liggja að baki þess að foreldrar skutli börnum sínum í skólann. Flestir sögðu ástæðuna vera þá að það væri praktískara og næst á eftir var öryggið.4 Til að bæta öryggi á gönguleiðum skólabarna er því mælt með að:

 • Í nýjum hverfum ætti að velja staðsetningu skólans útfrá því hversu vel hún hentar gangandi og hjólandi börnum
 • Skipulag hjóla- og gönguleiða sé þannig að þar sem þvera þarf götu sé hraði lágmarkaður með hraðatakmarkandi aðgerðum sem eru í samræmi við umferðarmagn
 • Skipuleggja „skutl“ svæði við skóla þar sem fæstir gangandi og hjólandi þvera götur

Þetta eru hins vegar allt langtímaverkefni. Önnur leið til að bæta öryggi við skólana er að hafa áhrif á foreldrana, meðal annars.5

 • Fá þá til að upplifa að það sé öruggt fyrir börnin að fara sjálf í skólann og sannfæra þá um að þeir séu góðir foreldrar þó börnin gangi eða hjóli sjálf í skólann
 • Veita foreldrum upplýsingar um æskilegustu staðina til að sækja og skutla börnum
 • Gera bækling sem sýnir öruggustu göngu- og hjólaleiðir í skólann

Gönguleiðir og ferðavenjukönnun

Til að lágmarka umferð og auka umferðaröryggi við skóla er mikilvægt að foreldrar upplifi að það sé öruggt að senda börnin gangandi eða hjólandi sjálf í skólann.

Til að fá yfirsýn yfir helstu gönguleiðir barna í skólann og gera þær öruggar, er könnun framkvæmd á meðal skólabarna þar sem upplýsingum frá börnunum sjálfum um hvaða leiðir þau ganga eða hjóla í skólann er safnað, ásamt því að kanna hvernig þau upplifa umferðaröryggi sitt á leiðinni. Könnunin er framkvæmd á skólatíma til að koma í veg fyrir að þau verði fyrir áhrifum frá foreldrum/forráðamönnum um hættustaði.

Könnunin fer þannig fram að skólastjórar/kennara hvers skóla fá aðgang að hlekk að könnun. Kennarar leggja síðan könnunina fyrir nemendur þar sem þau eru spurð:

 • Hvaða ferðamáta þau notuðust við þann daginn í skólann
 • Hvaða ferðamáta þau notast við yfirleitt á leið í skólann

Á mynd hér að neðan má sjá niðurstöður úr könnun sem lögð var fyrir grunnskólabörn í Árborg vorið 2020.6

Kökurit sem sýnir hlutfall ferðamáta skólabarna í Árborg

Mynd: Hlutfall ferðamáta skólabarna í 3., 6. og 9. bekk í öllum grunnskólum Árborgar. Ferðamáti þann dag sem könnun var lögð fyrir (til vinstri) og ferðamáti sem er yfirleitt fyrir valinu (til hægri).

Gönguleiðir skólabarna í Árborg

Í framhaldi eru þau beðin um að teikna gönguleið sína á rafrænt kort (loftmynd) og benda á staði þar sem þau upplifa sig óörugg á leiðinni og tilgreina hvað það er sem gerir staðinn varasamann. Á mynd hér til hliðar má sjá niðurstöður skólabarna í Árborg.6

Kort sem sýnir gönguleiðir skólabarna í Árborg

Gönguleiðir skólabarna í Árborg. Gögn unnin upp úr upplýsingum um gönguleiðir frá skólabörnum í 3., 6., og 9. bekk. Sýnt er hlutfall ferðamáta allra skólanna miðað við þann dag sem könnunin var gerð.

Öruggari gönguleiðir, vistvænni ferðamáti

Niðurstöðurnar eru nýttar til að kortleggja helstu gönguleiðir skólabarna, vinna markvisst að því að gera þær öruggar og hvetja síðan skólabörn til að nota þær gönguleiðir. Þannig er hægt að auka vistvænan ferðamáta á meðal grunnskólabarna, minnka umferð við grunnskólana og stuðla þannig að bættu umferðaröryggi skólabarna og aukins ferðafrelsi þeirra.

Mikilvægt er í þessu samhengi að göngu-og hjólaleiðir grunnskólabarna til og frá skóla séu ekki bara kynntar börnum, heldur foreldrum líka. Hægt er að útbúa bækling fyrir börn og foreldra sem sýnir öruggar gönguleiðir í hvern og einn skóla.

Sveitarfélög geta síðan í framhaldi af þessari vinnu búið til aðgerðaráætlun til að vinna að bættu umferðaröryggi, fækka slysum og auka lífsgæði skólabarna sem og annarra íbúa sem ferðast um stígakerfi sveitarfélagsins.   

EFLA hefur unnið þessa vinnu fyrir nokkur sveitarfélög, oftast í tengslum við gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélögin en einnig í beinum tengslum við umferðaröryggi skólabarna. 

Umferðaröryggisáætlun Árborgar

Umferðaröryggisáætlun Garðabæjar

Heimildir

 1. Samgöngustofa, Vegagerðin og Mannvit. 2010. Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga - Leiðbeiningar. Reykjavík. Samgöngustofa.

 2. Björklid, Pia. Mats Gummesson. 2013. Children's Independent Mobility in Sweden. Stockholm University og Trafikverket. Borlänge: Trafikverket.

 3. Hydén, C. 2010. „Trafiksäkerhet“. í Trafiken i den hållbara staden, ritstýrt af C. Hydén. Lund, Sweden: Studentlitteratur AB.

 4. Kröyer, Höskuldur R. G. 2015b. „The relation between speed environment, age and injury outcome for bicyclists struck by a motorized vehicle - A comparison with pedestrians“. Accident Analysis and Prevention 76. doi: 10.1016/j.aap.2014.12.023.

 5. SKL. 2013. Varför skjutsar föräldrarna barnen till skolan? Stockholm, Sweden: Sveriges Kommuner och Landsting.

 6. EFLA. 2021. Umferðaröryggisáætlun Árborgar. Reykjavík. Sveitarfélagið Árborg.