Umferðarstjórnunarkerfi EFLU í jarðgöngum í Færeyjum

19.08.2016

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

EFLA var fengin til að hanna umferðarstjórnunarkerfi í Árnafjarðargöngum (1.680 m) og Hvannasundsgöngum (2.120 m) í Færeyjum, en saman mynda þau nánast ein löng göng.

Umferðarstjórnunarkerfi EFLU í jarðgöngum í Færeyjum

Jarðgöngin, sem heimamenn kalla Tunnlarnir norður um fjall, eru á eynni Borðey og tengja saman Klaksvík við Árnafjörð og bæina þar fyrir norðan, Hvannasund og Norðdepil. Göngin sem eru einbreið voru meðal fyrstu jarðganga í Færeyjum og voru tekin í gagnið á sjöunda áratugnum.

Hættulegar aðstæður sköpuðust

Þar sem göngin eru einbreið sköpuðust hættulegar aðstæður í göngunum þegar stærri bifreiðar, rútur og tengivagnar mættust, en útskotin eru ekki nægilega breið fyrir slík farartæki. Þannig þurftu bílstjórar stærri bifreiða sem mættu öðrum stórum bílum í göngunum að bakka út með tilheyrandi áhættu og óþægindum. Í göngunum er töluverð umferð, sérstaklega yfir sumartímann, og eru göngin meðal annars nýtt fyrir rútuferðir skólabarna á milli nágrannasvæða. Það var því mikil þörf á að leysa vandamál varðandi umferðastjórnun í göngunum og var EFLA fengin til að hanna kerfi sem gæti stýrt umferð stærri bíla um göngin. En þess má geta að EFLA hefur áður komið að slíku verkefni og hannaði m.a. umferðarstjórnunarkerfið sem er í jarðgöngunum við Oddsskarð í Fjarðarbyggð.

Teymi frá EFLU hannaði því umferðarstjórnunarkerfi sem sigtar út stærri bifreiðar og stöðvar þær við gangaop ef önnur stór farartæki eru inni í göngunum. Þannig getur kerfið komið í veg fyrir að stórar bifreiðar mætist í göngunum, en umferðarstjórnunarkerfið er staðsett við öll gangaop í Klaksvík, Árnafirði og Hvannasundi. Landsverk í Færeyjum, sem sér meðal annars um samgöngumál á eyjunum, bar ábyrgð á verkinu og tók þátt í innleiðingu þess, en vinna við verkið hófst í nóvember 2015.

Kerfið hefur sannað ágæti sitt

Umferðarstjórnunarkerfið í Tunnlunum norður um fjall hefur verið í notkun síðan í júní á þessu ári og segir Gunn H. Møller, verkefnisstjóri hjá Landsverki, að reynslan af kerfinu hafi verið afar góð og vegfarendur ánægðir með þessa nýju lausn. Með kerfinu er hægt að stjórna umferð stærri bifreiða í gegnum göngin og tryggja þannig öruggari vegasamgöngur á svæðinu.

Kerfið býður einnig upp á að hægt er að loka göngunum fyrir allri umferð og fjarstýrir Landsverk eða lögreglan þeim möguleika. Notagildi þess sýndi sig glögglega fyrir stuttu þegar grindhvalatorfa kom í Hvannasund og fólk dreif að til að fylgjast með torfunni, en í kjölfarið myndaðist umferðartappi í göngunum. Lögreglan notaði þá þennan eiginleika kerfisins og lokaði fyrir alla umferð um göngin og stýrði þannig þeirri umferð sem um þau fóru.