EFLA og NLSH (Nýr Landspítali) gerðu nýverið samning sín á milli vegna verkeftirlits sunnan Burknagötu. Þar verður rannsóknarhús, bílastæða- og tæknihús, hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ og tengigangar milli bygginga.
Miklar tæknilegar kröfur
„EFLA hefur sinnt eftirliti með uppsteypu og klæðningu fyrir svokallaðan meðferðarkjarna fyrir NLSH frá upphafi verkefnisins árið 2020. Þannig að þetta er framhald af því verkefni og mun það standa til ársins 2028,” segir Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá EFLU.
„Það voru gerðar miklar tæknilegar kröfur til þeirra sem buðu í þetta verkefni og við getum stolt sagt að við stóðumst þær. Þegar mest lætur er reiknað með að á annan tug starfsfólks EFLU verði við eftirlit á svæðinu,” bætir Ólafur Ágúst við.
Ólafur Ágúst undirritaði samninginn ásamt Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra NLSH.