Uppbygging á ferðamannastöðum

15.06.2015

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

EFLA hefur á undanförnum misserum komið að hönnun útsýnis- og göngupalla á vinsælum ferðamannastöðum vítt og breytt um landið, í samstarfi við arkitektastofurnar Arkís arkitekta, Landmótun og Landform.

Uppbygging á ferðamannastöðum

Þegar hafa verið byggðir útsýnispallar við Skógafoss þar sem Landform sá um aðalhönnun og við Ófærufoss í Eldgjá, sem þar sem Arkís arkitektar og Landform sáu um aðalhönnun. Einnig er hafin vinna við útsýnis- og göngupalla við Dettifoss þar sem Landmótun er aðalhönnuður.Nú í sumar er svo ráðgerð uppbygging á fjórum útsýnisstöðum í viðbót þar sem EFLA hefur komið að hönnuninni. Þetta er við Svartafoss, þar sem Landmótun sér um aðalhönnun og við Skógafoss, sem og við Göngumannafoss og Hrísvaðsfoss í Arnarfirði, þar sem Landform er aðalhönnuður.

Tilgangurinn með pöllunum er fyrst og fremst sá að bæta öryggi ferðamanna, þar sem oft er umtalsverð fallhætta við umrædda staði, en jafnframt stuðla þeir að minni ágangi á umhverfið og minnka líkur á gróðureyðingu. Útsýnispallarnir við Dettifoss, Svartafoss og í Eldgjá eru settir upp á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, pallarnir í Arnarfirði eru á vegum Umhverfisstofnunar en pallarnir við Skógafoss eru kostaðir af Rangárþingi eystra.

Við hönnun pallanna er lögð áhersla á að lágmarka efnisnotkun og nota endingargóð efni. EFLA hefur séð um útfærslu burðarvirkja fyrir pallana, gerð smíðateikninga og útboðsgagna. Jafnframt hefur EFLA, í nokkrum tilfellum, séð um gerð áhættumats, jarðvegsrannsóknir og eftirlit meðan á framkvæmdum stendur. Burðarvirkjahönnun pallanna er oft á tíðum mjög krefjandi, þeir standa gjarnan í brekku eða við bjargbrún sem gerir það að verkum að undirstöður þeirra og burðarvirki þurfa að standast strangar öryggiskröfur. Nokkrir pallanna voru teiknaðir upp í þrívídd en það auðveldar alla vinnu fyrir hönnuði og aðra sem að verkinu koma.

Smíði pallanna er einnig áskorun, þeir eru oft staðsettir fjarri alfaraleiðum. Í þeim tilvikum hefur verið gripið til þess ráðs að smíða burðargrindina á verkstæði og flytja hana, ásamt öðru smíðaefni og búnaði, á sinn stað með þyrlu.