„Styrkinn munum við nota til þess að uppfæra æfinga- og keppnisáhöld í frjálsíþróttum en áhöldin nýtast iðkendum frá fleiri félögum á HSÞ-svæðinu sem hafa í gegnum tíðina komið reglulega á æfingar í Lauga,” segir Gunnhildur Hinriksdóttir, gjaldkeri Ungmennafélagsins Eflingar, sem fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU.
Meistaramót um helgina
Hjá Eflingu iðka um 30 krakkar frjálsar íþróttir allt árið og auk þess eru enn fleiri iðkendur annarra félaga sem nýta sér aðstöðu félagsins. „Iðkendur frá Mývetningi sem hafa komið á völlinn einu sinni í viku í sumar, þau eru eitthvað um 10 til viðbótar. Við vorum svo með eina sameiginlega æfingu í júní fyrir allt HSÞ-svæðið og þá bættust við krakkar frá Kópaskeri og Öxarfirði,” segir Gunnhildur.
Félagið heldur einnig mót á svæðinu og nú um helgina heldur félagið stórmót. „Við höfum árlega haldið þokkalega stórt mót, Sumarleika HSÞ, með allt að 150 keppendum sem koma víðs vegar af landinu og í ár munum við halda Meistaramót Íslands 11-14 ára í frjálsíþróttum,” bætir hún við.

120 ára gamalt félag
Ungmennafélagið Efling fagnaði 120 ára afmæli á árinu, en það var stofnað 24. apríl 1904. Langflestir iðkendur félagsins eru búsettir á skólasvæði Þingeyjarskóla, þ.e.a.s í Aðaldal í Reykjadal, Aðaldal og Kinn. „Ég vonast til þess að við munum eiga 10-15 keppendur á MÍ 11-14 ára og í heildina komi 150+ keppendur í Lauga,” útskýrir Gunnhildur.
Hún segir að Ungmennafélagið Efling sé út á við líklega ekki þekkt fyrir íþróttalegan árangur. Hins vegar hefur leiklistarstarf félagsins verið blómlegt um áratugaskeið en félagið hefur sett upp fjölda leiksýninga. „Leikdeildin setti til að mynda upp leikverkið Landsmótið árið 2004 sem þá var valið áhugaverðasta áhugamannaleiksýningin og sýndi leikhópurinn verkið í Þjóðleikhúsinu við góðar undirtektir,” segir Gunnhildur að lokum.