Útsýnispallur á Bolafjalli formlega vígður

05.09.2022

Fréttir
The photo shows unclear scene of a round about near a cliff

Mynd tekin úr dróna af útsýnispallinum á Bolafjalli nokkrum vikum fyrir formlega opnun.

Útsýnispallurinn á Bolafjalli var formlega vígður fimmtudaginn 1. september að viðstaddri ríkisstjórn Íslands og öðrum gestum. Það var Pétur Vigfússon, íbúi í Bolungarvík, sem klippti á borðann og formlega opnaði útsýnispallinn. Bolafjall er afar vinsæll viðkomustaður ferðamanna á norðanverðum Vestfjörðum og frá fjallinu er stórbrotið útsýni.

Útsýnispallur á Bolafjalli formlega vígður

Forsaga málsins er sú að árið 2019 stóð Bolungarvíkurkaupstaður fyrir hönnunarsamkeppni vegna mótunar landsvæðis á Bolafjalli. Tillaga frá teymi arkitektastofanna Sei, Argos og Landmótunar bar sigur úr bítum sem fól meðal annars í sér 60 metra langan útsýnispall sem byggður yrði í halla niður stórstuðlaðan klettahamarinn, í um 600 metra hæð yfir jafnsléttu. Til að setja það í samhengi þá eru það um átta og hálf Hallgrímskirkja.

Teymi EFLU vann að burðarþolshönnun, framkvæmdaráðgjöf, vindgreiningum og jarðtækniráðgjöf. Aðstæður á Bolafjalli eru afar krefjandi og mikil áskorun fyrir hönnuði sem þurftu að taka tillit til mikilla vinda og erfiðra vinnuaðstæðna. Lögð var rík áhersla á að halda svæðinu að mestu ósnortnu að framkvæmdum loknum.

The photo shows unclear scene of a round about near a cliff

Bolafjall - útsýnispallur