Varanlegar göngugötur í Reykjavík

04.02.2019

Fréttir
white building with unique rounded design roof situated on the waterfront

Reykjavíkurborg kallaði eftir íbúasamráði um útfærslur á varanlegum göngugötum.

Reykjavíkurborg kallaði eftir samtali við íbúa og fagaðila til að ræða útfærslur og hönnun göngugatna. Eva Þrastardóttir, skipulagsfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um það sem hafa ber í huga við breytingu blandaðra verslunargatna í göngugötur.

Headshot of a woman

Eva Þrastardóttir, skipulagsfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um göngugötur.

Varanlegar göngugötur í Reykjavík

Íbúasamráð Reykjavíkurborgar um varanlegar göngugötur fór fram dagana 28. janúar til 3. febrúar. Allir sem voru áhugasamir um málefnið fengu tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum um hvernig göngugötur ættu að vera og hverju þurfi að huga að við hönnun og útfærslur á þeim.

Skipulagsfræðingurinn Eva Þrastardóttir hélt erindi í Ráðhúsi Reykjavíkur um hönnun göngugatna, en EFLA hefur komið að hönnun gatna, vega og stíga í sínu víðasta samhengi. „Hægt er að skapa mjög aðlaðandi aðstæður við breytingu verslunargatna í göngugötur sem henta fjölbreyttum hóp. Sýnt hefur verið fram á að með vandaðri hönnun þar sem tekið er tillit til aðgengismála ólíkra aðila batnar aðgengi, öryggi og nýting umtalsvert við breytinguna. Þá sérstaklega aðkoma neyðarbíla, aðgengi hreyfihamlaðra og vöruafgreiðsla. “ sagði Eva. Göngugatan Laugavegur fékk einnig sérstakan umræðuflöt og hvernig mætti endurhugsa svæðið sem varanlega göngugötu.

Góður rómur var gerður að framtakinu og margar áhugaverðar hugmyndir og umræður sköpuðust í kjölfarið. Áform eru um að nýta þær við útfærslu á varanlegum göngugötum í Reykjavík. Nánari upplýsingar um málefnið er að finna á vef Reykjavíkurborgar.