Varmaendurvinnsla rædd hjá EFLU

09.05.2019

Fréttir
A group of people seated in a meeting room looking straight with great focus

Dokkufundur var haldinn hjá EFLU um hvernig nýta megi umframorku frá álveri.

Áhugaverður fræðslufundur fór fram hjá EFLU síðastliðinn fimmtudaginn þegar gestir frá Dokkunni komu í heimsókn. Viðfangsefnið var varmaendurvinnslukerfi í Fjarðaáli sem getur nýst við húshitun.

Varmaendurvinnsla rædd hjá EFLU

Fundurinn hófst á erindi Leós Blæs Haraldssonar sem skrifaði meistararitgerð um hvernig hægt væri að nýta orku úr álverksmiðju Alcoa Inc. til húshitunar í Fjarðabyggð en niðurstöður gefa ótvírætt til kynna að slíkt sé framkvæmanlegt. Leó Blær, sem er vélaverkfræðingur hjá EFLU, fór yfir tæknileg kerfi, varmaskipti, lagnir og dælubúnað. Einnig fór hann yfir áætlaðan kostnað og fjallaði um hvernig hægt væri að fjármagna verkefnið. Ríkið niðurgreiðir dreifikostnað á rafmagni þar sem jarðvarmi er ekki möguleiki. Allt bendir til að hægt væri að fá styrk frá ríkinu sem nemur 16 árum af niðurgreiðslum á Reyðarfirði til þess að fjármagna verkefnið í heild sinni. Leó benti á að varmaendurvinnsla í Fjarðaáli hefði beinan ávinning í lægri rekstrarkostnaði, framleiðsluskilyrði myndu batna. Þá hefði það í för með sér jákvæðari umhverfisáhrif álframleiðslunnar því þeim lægra sem hitastig kergassins er þeim mun minni er losun flúors.

A individual presenting at a podium to a seated audience

Leó Blær Haraldsson hélt erindið sem var byggt á niðurstöðum meistararitgerðar hans.

Betri orkunýting og ódýrara rafmagn

Brynjar Bragason, rafmagnstæknifræðingur hjá EFLU, stýrði líflegum umræðum í lok fundar. Þar velti fólk fyrir sér hvort orkusamningur Fjarðaáls við Landsvirkjun myndi mögulega skarast á við endurnýtingu varmans til notkunar í húshitun. Það væri þó talinn ólíklegur möguleiki út frá samfélagslegum og umhverfislegum forsendum og ekki síður út frá forsendum sjálfbærni. Varmaendurvinnsla myndi nefnilega bjóða Reyðfirðingum ódýrara heitt vatn, draga úr flúorlosun og stuðla að betri orkunýtingu og leysa raforku sem nú er nýtt til kyndingar á Reyðarfirði (um 5MW) til annarra verkefna.

A man speaking to an audience captured from behind and  observed by another man behind him

Brynjar Bragason stýrði umræðum í lok fundarins.

Umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur

Einnig var tekin fyrir sú spurning hvort það yrði fjárhagslegur ávinningur fyrir Fjarðaál ef varminn úr útblástursgasinu yrði nýttur. Í dag nýtir álverið ekki varmann og gæti því í staðinn boðið Fjarðabyggð að nýta hann í stað þess að láta hann fara til spillis. Rekstrarlegur ávinningur væri einnig til staðar við að koma fyrir varmaendurvinnslukerfi í Fjarðaáli. Með því að lækka hitastigið á gasinu væri ekki þörf á að blása köldu lofti í flæðið á gasinu til þess að kæla það. Þetta myndi draga úr aflþörf kerfisins því rúmmál gassins væri töluvert minna. Auk þess myndi líftími pokasía í gashreinsivirkinu aukast. Þá er einnig töluverður umhverfislegur og ekki síst samfélagslegur ávinningur fyrir Fjarðaál.

Við þökkum Dokkunni fyrir samstarfið og gestum fyrir ánægjulegan fund.