Vaxtartækifærin liggja erlendis

23.07.2022

Fréttir
A unique landscape with winding road and electric power transmission

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdarstjóri EFLU, um þýðingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands fyrir starfsfólk fyrirtækisins og framtíðarhorfur.

Vaxtartækifærin liggja erlendis

„Þetta er viðurkenning á vinnu sem hefur átt sér stað yfir langan tíma og viðurkenning á því að það er tekið eftir því sem við erum að gera jafnvel þótt það fari ekki alltaf hátt,“ segir Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, varðandi það hvaða þýðingu það hefur fyrir EFLU að fá Útflutningsverðlaun forseta Íslands.

Sæmundur segir verðlaunin vera viðurkenningu á löngu ferli og mikilli vinnu sem hefur einkennst af þrautseigju sem starfsfólk EFLU hefur sýnt í gegnum tíðina. „Þetta er okkur hvatning að halda áfram og auk þess passa verðlaunin vel við þá stefnu sem hefur verið sett fram síðasta ár, það sem við köllum Alþjóðleg EFLA,“ segir Sæmundur.

EFLA er nú stærsta fyrirtækið á sínu sviði á Íslandi og vaxtarmöguleikarnir innanlands því takmarkaðir. „Það er takmörkunum háð hversu stóran hluta af kökunni er hægt að fá á hverjum markaði. Utan Íslands erum við hins vegar örfyrirtæki og við þurfum bara svo lítinn hluta af kökunni til þess að það nægi okkur,“ útskýrir Sæmundur.

Headshot of a man

Alþjóðleg EFLA

Saga EFLU á alþjóðlegum markaði nær yfir nokkra áratugi og í raun aftur til þess tíma áður en EFLA var stofnuð við sameiningu nokkurra fyrirtækja. „Við nánari athugun sést að verkefni EFLU og fyrirrennara hennar spanna fimm heimsálfur ef við förum tvo áratugi aftur í tímann. Það eitt og sér er mjög merkilegt,“ segir Sæmundur.

Hins vegar hafi orðin ákveðin þáttaskil við stofnun EFLU AS í Noregi árið 2008. „Við hófum þá að skilgreina Noreg sem heimamarkað ásamt Íslandi. Upprunalega var einungis fengist við orkuflutningsverkefni og sterk sérhæfing byggð upp innan fyrirtækisins. „Það að ráðast í þetta verkefni og hafa úthald í að byggja það upp skiptir öllu,“ segir Sæmundur og bætir við að síðar hafi verið tekin ákvörðun um að stofna bæði byggingasvið og samfélagssvið í Noregi.

Leggja áherslu á gæðin

EFLA hefur hlotið hæsta gæðaskor meðal fyrirtækja á sínu sviði víða um heim. „Við erum komin með teymi í Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Frakklandi og víðar sem fær svo hátt gæðaskor fyrir sína sérhæfðu þekkingu að við erum að skáka stærstu verkfræðistofum Evrópu þegar við bjóðum í verk,“ segir Sæmundur og bætir við.

„Sem betur fer eru þetta markaðir sem leggja mikið upp úr gæðum og í raun eru þessi verðlaun staðfesting á því og áframhaldandi hvatning til okkar um það að trúa á gæðin. Við trúum á það að veita gæðaþjónustu skipti miklu máli og muni á endanum skila okkar viðskiptavinum betri og hagkvæmari lausnum þegar til lengri tíma er litið.“

Nú starfa 80 manns hjá dótturfélögum EFLU erlendis auk þeirra rúmlega 300 sem starfa hjá EFLU á Íslandi. „Ég vil meina að við séum teymi á heimsmælikvarða. Við erum að vinna verkefni í Noregi með mannskap frá Íslandi og Póllandi, við erum að vinna verkefni með mannskap frá Íslandi, Noregi og Póllandi. Við höfum unnið verkefni í Frakklandi með mannskap frá Íslandi og við sjáum ótal tækifæri með kaupunum á HECLU. Kaupin á HECLU sýna að við erum ekkert hætt, við erum enn að vinna eftir þessari stefnu,“ segir Sæmundur.

A huge power transmission surrounded by trees under a partly cloudy sky

Á myndinni sjást möstur í Skogssäter – Kilanda 400 kV línunni sem EFLA hefur unnið við að hanna endurbyggingu á.

Hvatning til að gera ennþá betur

Sæmundur lítur á þessi verðlaun sem aukin kraft til þess að halda áfram. „Þetta gerist ekki nema með mikilli þolinmæði. Eigendur, stjórnendur og allt starfsfólkið hafa haft trú, þrautsegju og eldmóð til að halda þetta út. Það koma hafa komið upp alls konar áföll á leiðinni, bæði innanhúss og utanaðkomandi, þannig það má kannski segja að þetta séu verðlaun fyrir úthald,“ segir Sæmundur en tekur skýrt fram að ekki verði staðar numið hér.

„Við erum ekkert hætt og langt því frá. Þetta er hvatning til að gera ennþá betur og passar alveg við það sem við höfum verið að segja síðasta ár, að EFLA þarf að verða ennþá alþjóðlegri. Það þýðir að móðurfélagið á Íslandi þarf að verða enn alþjóðlegri, því dótturfélögin eru það. Vaxtartækifærin liggja úti en það er ekki þar með sagt að við ætlum að vera risa fyrirtæki á alþjóðavísu, alls ekki. Heldur reyna að finna litlar hillur þar sem við getum orðið best,“ segir Sæmundur að lokum.