Vekja athygli á sögu Kvíabekkjar

30.07.2024

Fréttir
Maður og kona með blóm.

Kvíabekkjarkirkja Svanfríður Halldórsdóttir, forsvarskona Hollvinafélags Kvíabekkjarkirkju, og Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU.

„Það var langur aðdragandi að þessu verki vegna þess að við sáum að þetta kæmi til með að kosta mikinn pening,“ segir Svanfríður Halldórsdóttir, forsvarskona Hollvinafélags Kvíabekkjarkirkju, sem vinnur að því að bjarga Kvíabekkjarkirkju í Ólafsfirði, en félagið fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU.

Elsti og merkasti sögustaður Ólafsfjarðar

Stofnfundur Hollvinafélags Kvíabekkjarkirkju var haldinn 22. október 2020 eftir að jörðin Kvíabekkur komst í eigu byggingaverktaka sem hafði tengingu við staðinn. „Tveir ungir menn, tengdir sveitinni, komu þá að máli við hann varðandi stofnun félags til bjargar Kvíabekkjarkirkju því hún var orðin mjög illa farin,“ segir Svanfríður.

Hún segir að markmið Hollvinafélags Kvíabekkjarkirkju í Ólafsfirði sé að draga fram og vekja athygli á sögu Kvíabekkjar. „Þetta er elsti og merkasti sögustaður Ólafsfjarðar og landnámsjörð Ólafsbekks. Við viljum sjá þennan stað sem áhugaverðan áfangastað fyrir ferðamenn og aðra þá sem áhuga hafa á sögu lands og þjóðar,“ útskýrir Svanfríður.

Unnið á hverju sumri

Ýmislegt hefur nú þegar verið gert til þess að byggja upp gömlu kirkjuna. „Allir gamlir munir kirkjunnar voru fjarlægðir og þeim komið fyrir í geymslu. Kirkjan var losuð upp og lyft af grunni. Jarðvegsskipti voru gerð, nýr grunnur gerður, einangraður og gólfhitalagnir lagðar. Eftir það var kirkjuhúsinu lyft á nýja grunninn og fest,“ segir Svanfríður.

„Síðan hefur verið unnið á hverju sumri eftir því sem fjármagn hefur leyft til áframhaldandi viðgerða. Hvenær verklok verða fer eftir því hve vel tekst að afla peninga og virkja hollvini til góðra verka, því við höfum sett okkur það takmark að eyða ekki um efni fram,“ bætir Svanfríður við.

Saga staðarins

Saga þessa staðar er eftirfarandi en henni ásamt fleiru verður komið til skila á upplýsingaskiltum á staðnum.

Kvíabekkur er landnámsjörð Ólafs bekks Karlssonar frá Hálogalandi í Noregi sem nam Ólafsfjörð að vestanverðu. Fljótlega eftir kristnitöku mun hafa verið reist þar bændakirkja og árið 1326 setur Lárentíus Kálfsson Hólabiskup þar á stofn prestaspítala eða elliheimili, það fyrsta á Íslandi, fyrir aldraða presta. Um staðsetningu slíkrar stofnunar á Kvíabekk mun hafa að mestu ráðið hve fiskmeti var auðfáanlegt, bæði úr sjó og vatni. Kvíabekkur taldist til betri brauða norðanlands og var sóknin ein sú stærsta á fyrri öldum. Þar munu hafa verið 24 bæir á meðan algengt var að 7–10 bæir væru í sókn. Kostur var að ekki þurfti að fara yfir fjöll eða sjó til tíðasöngs og húsvitjunar þar sem prestakallið var innan eins fjallahrings. Kvíabekkjarkirkja var sóknarkirkja Ólafsfirðinga allt þar til ný kirkja var tekin í notkun 1916 í Horninu sem síðar varð Ólafsfjarðarkaupstaður.

Nánari upplýsingar um Samfélagssjóð EFLU.