Vel heppnuð umhverfisvika EFLU

10.04.2019

Fréttir
A modern building with vertical lines on its facade with EFLA company logo

Höfuðstöðvar EFLU eru að Lynghálsi 4.

EFLA leggur mikla áherslu á að ná betri árangri í umhverfismálum, hvort sem er í eigin starfsemi eða í verkefnum. Til að stuðla að aukinni vitund starfsmanna um umhverfistengd málefni er haldin einu sinni á ári Umhverfisvika EFLU.

Vel heppnuð umhverfisvika EFLU

Fyrstu vikuna í apríl var haldin Umhverfisvika EFLU sem er ætlað að fræða og stuðla að framförum í umhverfismálum hvort sem er í nærumhverfinu eða verkefnavinnu fyrirtækisins. Að þessu sinni voru loftslagsmálin og vistvænar samgöngur í brennidepli ásamt því að horft var sérstaklega í umhverfistækifæri í verkefnum. Starfsfólk EFLU sá um fræðsluna og héldu áhugaverð erindi ásamt því sem ýmiss konar fróðleik var miðlað áfram.

Matarreiknivél sem sýnir kolefnisspor

Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissvið, fjallaði um kolefnisspor, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og samfélagslega ábyrgð. Tók hún nokkur áhugaverð dæmi sem sýna kolefnisspor fyrir mismunandi vörur og hvernig við getum nýtt okkur upplýsingarnar til að draga úr kolefnissporinu. Þá kynnti Helga nýja matarreiknivél, sem starfsfólk EFLU hannaði, og sýnir kolefnisspor hádegismatar hjá EFLU. Þannig sér fólk svart á hvítu hvernig ólík samsetning af mat, kjöt, fisk, korn og grænmeti skilur eftir sig mismikið kolefnisspor.

A colorful chart comparing some data

Vistvænn ferðamáti

Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir, byggingartæknifræðingur á samgöngusviði, sagði frá verkefnum sem EFLA vinnur að í tengslum við samgöngur og vistvænan ferðamáta. Hún benti á nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að verða umhverfisvænni og nefndi sérstaklega tækifærin sem fælust í því að nýta sér reiðhjólið sem ferðamáta og strætóferðir. Einnig nefndi Elín Ríta að EFLA styrkir þá sem koma til vinnu með umhverfisvænum ferðamáta og veitir samgöngustyrk. Þá eru starfsmenn hvattir til að koma til vinnu með vistvænum ferðamáta og á staðnum er góð sturtu- og búningsaðstöðu og hjólageymsla í húsinu.

A person biking next to a field of blooming white flowers

Hjólreiðar eru frábær ferðamáti fyrir umhverfið, líkama og sál.

Umhverfistækifæri í verkefnum

Arnar Kári Hallgrímsson, byggingarverkfræðingur á byggingarsviði, hélt erindi sem fjallaði um hönnunarverkefni og hvernig hægt væri að nýta sér umhverfisvænar nálganir í þeirri vinnu. Hann nefndi að það væri á ábyrgð okkar allra að ráðstafa auðlindum á hagkvæman hátt og hefðu ráðgjafar sem vinna við hönnun bygginga mikil tækifæri til slíks.