Tillaga Arkþing-Nordic og EFLU hlaut fyrstu verðlaun í opinni hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands.
Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) í samstarfi við Arkitektafélag Íslands (AI) efndi til opinnar hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu stofnunarinnar í Hveragerði. Úrslit voru gerð opinber föstudaginn 3. júlí og hlaut tillaga arkitektastofunnar Arkþing-Nordic og EFLU verkfræðistofu verðlaun. Alls bárust 11 tillögur í keppnina.
Vistvæn framtíðarumgjörð
Meginmarkmið vinningstillögunnar er að leggja drög að aðlaðandi, vistvænni og rekstrarlega hagkvæmri framtíðarumgjörð um starfsemi Heilsustofnunar (HNLFÍ) og tengdrar starfsemi. Lögð hefur verið höfuðáhersla á góðar tengingar við náttúru og nærumhverfi sem og góðar tengingar innan bygginga Heilsustofnunarinnar og heilsudvalarstaðarins og hagkvæma áfangaskiptingu.
Tengsl við náttúru og nærumhverfi
Byggingarnar hlykkjast um sveigðan ás sem tengir saman alla hluta Heilsustofnunarinnar og heilsulindarinnar en formið leitar m.a. í innblástur frá lögun Varmár. Herbergi njóta útsýnis, útilaug er í skjólsælu rými í góðum tengslum við nærliggjandi náttúru og matsalur opnast bæði að útsýni og inngarði. Áhersla er á að tengja saman hönnun byggingar og landslags svo úr verði órofin heild inni- og útirýma. Fjölbreytt stígakerfi býður upp á úrval leiða við allra hæfi sem nýtist m.a. við endurhæfingu gesta.
Sjálfbær nýting náttúruauðlinda
Rík áhersla er á vistvænar lausnir, m.a. til þess að draga úr kolefnisspori uppbyggingar og starfsemi. Horft er til sjálfbærar nýtingu náttúruauðlinda s.s. jarðvarma, blágrænna ofanvatnslausna, ræktunar í gróðurhúsum, staðbundins gróðurs, flokkunar og endurnýtingar.
Myndir frá verðlaunatillögu EFLU og Arkþing-Nordic
- 1 / 4
Gert er ráð fyrir skjólgóðum innigörðum. Líkanmynd: Arkþing-Nordic.
- 2 / 4
Aðkoman býður upp á góðar tengingar við starfsemi sem og náttúru og nærumhverfi. Líkanmynd: Arkþing-Nordic.
- 3 / 4
Mikil áhersla er lögð á vistvænar lausnir til að draga úr kolefnisspori byggingarinnar. Mynd: EFLA.
- 4 / 4
Horft er til sjálfbærar nýtingu náttúruauðlinda í starfseminni. Mynd: EFLA.