Verkefni í Finnafirði á áætlun

31.08.2015

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Tvær sjálfvirkar veðurstöðvar voru nýverið settar upp í Finnafirði. Uppsetning þeirra er hluti af rannsóknarvinnu til að kanna forsendur fyrir byggingu stórskipahafnar í firðinum. Þýska fyrirtækið Bremenports ber kostnað af rannsóknunum. Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar EFLU, hefur umsjón með rannsóknunum hér á landi.

Verkefni í Finnafirði á áætlun

Í maí í fyrra var undirritaður samstarfssamningur Langanesbyggðar og þýska hafnarfyrirtækisins Bremenports um að fyrirtækið standi straum að kostnaði við nauðsynlega rannsóknarvinnu næstu árin. Í framhaldi kæmi í ljós hvort skynsamlegt sé að reisa alþjóðlega stórskipahöfn í Finnafirði við Langanes. Á síðasta ári hófust rannsóknir á lífríki á landi og lauk þeim í maí. Nú er verið að rannsaka jarðfræði svæðisins og veðurfar.Núna í ágúst voru settar upp tvær sjálfvirkar veðurstöðvar, önnur sunnan megin fjarðar og hin norðan megin fjarðar í svokallaðri Gunnólfsvík og þær senda reglulega veðurupplýsingar til EFLU verkfræðistofu og til Bremenports.

Einnig voru gerðar miklar jarðvegsrannsóknir í sumar og fljótlega verða sett upp öldumælinga- og straummælingadufl í firðinum og utan við hann. Upplýsingum um öldufar og veðurfar verður svo safnað næstu tvö árin að minnsta kosti.

Frumrannsóknir og uppstillingar hafnarmannvirkja í Finnafirði liggja fyrir og benda þær til þess að kostnaður við uppbyggingu sé innan eðlilegra marka við slíkar framkvæmdir.

Undirbúningsrannsóknum fyrir hugsanlegt umhverfismat fyrir stórskipahöfn í Finnafirði getur verið lokið eftir þrjú til fjögur ár, en fyrstu niðurstöður rannsókna lofa góðu.