Verkfræðihönnun salernishúsa við Dettifoss

09.09.2021

Fréttir
People walking towards small cabin like structure with dark roof

Ný salernishús við Vatnajökul hafa verið tekið í notkun.

Ný salernishús hafa verið tekin í notkun við Dettifoss í Vatnajökulsþjóðgarði. EFLA sá um verkfræðihönnun og útfærslu salernislausna en á svæðinu er hvorki vatn né rafmagn og þarfnaðist verkefnið því töluverðrar útsjónarsemi.

EFLA hefur lokið við metnaðarfullt og krefjandi verkefni við Dettifoss. Í því fólst verkfræðihönnun og uppsetning á salernisaðstöðu fyrir gesti Vatnajökulsþjóðgarðs en Dettifoss laðar að sér fjölda ferðamanna á degi hverjum. Hvorki rennandi vatn né rafmagn er á svæðinu auk þess sem veður eru afar válynd.

Hús sem fellur vel í umhverfið

Salernin, sem eru vestanmegin fossins, eru fjórtán talsins en auk þess er í húsinu aðstaða landvarðar og rafgeymarými fyrir sólarrafhlöður. EFLA leitaði til finnska fyrirtækisins Pikkuvihreä, sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á þurrsalernum, við val á salernum en fyrirtækið býr að mikilli reynslu af hönnun og framleiðslu þurrsalerna. Verkfræðihönnun hússins var í höndum EFLU en arkitektar voru Argos. Landmótun landslagsarkitektar sáu um deiliskipulag, bílastæði, palla kringum húsið og aðlögun að umhverfinu.

Húsið er í náttúrulegum litum, eins og sjá má á ofangreindri mynd, og fellur vel inn í hrjóstugt umhverfið.

Þurrsalerni og hreinsaður úrgangur fer í uppgræðsluverkefni

Útfærsla og framkvæmd verksins var afar krefjandi enda aðstæður við Dettifoss að vestanverðu frumstæðar. Starfsfólk EFLU mátaði ýmsar tæknilausnir í samstarfi við þjóðgarðinn áður en sú sem nú hefur verið tekin í notkun varð fyrir valinu.

Þurrsalernin fjórtán, sem eru afar þrifaleg, eru í einu húsi. Undir hverri salernisskál er tunna sem búin er náttúrulegri öndun. Hún safnar úrganginum en hleypir rennandi vökva undan sem ratar aðskilinn í sameiginlegan safntank fyrir öll salernin. Undir húsunum er rúmgóður kjallari þar sem nægt rými er til að geyma hreinar tunnur og skipta út fullum eftir því sem þörf krefur. Úrgangur á föstu formi er fluttur á Hólasand, þar sem hann fer í safntank sem ætlaður er fyrir söfnun svartvatns í Skútustaðahreppi. Eftir frekari meðhöndlun er úrgangurinn nýttur til uppgræðsluverkefna Landgræðslu ríkisins.

Rafmagn kemur frá sólarrafhlöðum

Á hverju salerni er lýsing sem fær orku frá sólarrafhlöðum sem staðsettar eru nálægt húsinu en langt er í næstu raflögn. Handþvottur fer fram með spritti og eru því engar handlaugar í salernisaðstöðunni.

Framkvæmdaaðilar þurftu að taka tillit til veðurs við uppsetningu hússins. Hlé var gert á framkvæmdum yfir miðjan veturinn auk þess sem húsin voru sett saman eins og kostur var í byggð. Áætlað er að 200 til 500 manns noti salernin á degi hverjum en óhætt er að segja að húsið hafi gjörbylt aðstöðu ferðamanna við vestanverðan Dettifoss.

A person walking towards small cabin like structure with dark roof next to two solar cells