Vestmannaeyjahöfn skipulagsgreining

24.02.2023

Blogg
Loftmynd af vestmannaeyjahöfn tekin frá landi og horft út á sjó

Undirstaða atvinnulífs

Vestmanneyjahöfn er ein af stærri höfnum landsins og tilheyrir grunneti samgangna á Íslandi og er hlutur hafsækinnar starfsemi í atvinnulífi Vestmannaeyjabæjar mikill. Framlag Vestmannaeyjahafnar til íslenskra hafnartekna var rúm 5% árið 2021. Vestmannaeyjahöfn er því mikilvæg fyrir bæði nærsamfélagið og landið allt.

Atvinnulífið í Vestmannaeyjum byggir að stærstu leyti á tveimur meginstoðum, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Sjávarútvegur hefur í gegnum tíðina verið undirstaða atvinnulífs í Vestmannaeyjum og er um 10 - 12% af veiðiheimildum landsins skráð á skip sem eiga heimahöfn í Vestmannaeyjahöfn. Ferðamennska er önnur atvinnugrein sem umtalsverður vöxtur hefur verið í síðasta áratug í Vestmannaeyjum. Enn fremur hafa samgöngur til og frá Eyjum styrkst á síðustu árum þar sem tilkoma Landeyjarhafnar hefur gefið möguleika á tíðari ferðum milli lands og eyja.

Helstu hlutverk Vestmannaeyjahafnar eru:

  1. Flutningar og geymsla á vörum (bæði í og utan gáma), bifreiðum og farþegum.
  2. Styðja við starfsemi tengda sjávarútvegi.
  3. Styðja við ferðaþjónustu, s.s. að þjónusta leiðangursskip, skemmtiferðaskip og smærri einka- og seglbáta.

Í þessu samhengi framkvæmdi EFLA skipulagsgreiningu á Vestmannaeyjahöfn fyrir hafnaryfirvöld í Vestmannaeyjum. Sú greining var unnin með það að leiðarljósi að sem best komi til með að takast að uppfylla vaxandi eftirspurn hafnarnotenda eftir fullnægjandi innviðum, rekstri og þjónustu, bæði til skemmri- og lengri tíma litið.

Greining á höfn til/frá skipi

Höfninni tengjast ýmsir hagsmunaaðilar. Fyrsta skref fyrir ákvarðanatöku í skipulags- og þróunarvinnu hafna er hagsmunaaðilagreining. Unnin var þarfagreining m.t.t. hagsmunaaðila Vestmannaeyjahafnar og þar gafst þeim hagsmunaaðilum tækifæri til að greina frá vandamálum, þörfum og væntingum er varða höfnina. Niðurstöður greiningarinnar má nýta til grundvallar frekari skipulagsvinnu sem og við gerð áætlana um frekari uppbyggingu í höfninni.

Greining og spár fyrir farmflæði og val á vænlegum mörkuðum eru leiðandi þættir við gerð hafnarskipulags og þróun hafnaruppbyggingar. Hafnaruppbygging sem byggir á greiningu þess farms sem fer um höfnina styður við hagkvæmari fjárfestingarákvarðanir. Með þetta að leiðarljósi var lagt mat á núverandi sem og framtíðar gáma- og farmflæði í Vestmannaeyjahöfn og litið til þróunar í hafnartengdri starfsemi á undanförnum árum. Þar að auki var unnin spá um þróun í komu skipa til næstu ára og áratuga.

Hafnarmannvirki, þjónusta og rekstur við höfnina gegna mikilvægu hlutverki fyrir samkeppnisstöðu hafnarinnar. Innviðir, rekstraraðstaða, og þjónusta Vestmannaeyjahafnar á sjó og í höfn var metið með hliðsjón af viðurkenndum alþjóðlegum stöðlum/leiðbeiningum og núverandi og framtíðarþörfum hagsmunaaðila, til að greina flöskuhálsa í og við höfnina. Jafnframt voru greind áhrif veðurfars og sjólags á hafnarreksturinn.

Greining á samþættingu milli núverandi hafnarstarfsemi var framkvæmd þar sem þetta veitir gagnlegar upplýsingar um hvort starfsemin sé vel staðsett á hafnarsvæðinu og hvort um hana ríki sem best innri sátt.

Samgöngur til og frá höfn og innan hafnar

Hafnarstarfsemi og sjóflutningar eru hluti af stærra samgöngukerfi sem samanstendur af fjölbreyttum samgöngumátum og innviðum. Markmið samgöngukerfa er að tryggja öruggt og greitt aðgengi á milli staða. Sú fjölbreytta starfsemi sem fer fram í höfnum getur sett álag á samgönguinnviði sem og nærliggjandi byggðir. Á það sér í lagi við á stöðum eins og í Vestamannaeyjum þar sem stutt er á milli hafnar og byggðar.

Markmið vinnunnar var að draga fram atriði sem hafa þarf í huga við hafnarskipulag til að nýta þau tækifæri sem felast í tengingu hafnar og byggðar (þ.m.t. iðnaðar- og atvinnusvæða) og samtímis að lágmarka mögulega árekstra og önnur neikvæð áhrif vegna starfseminnar og umferðar. Núverandi ástand var skoðað m.t.t. tenginga hafnarinnar við landssamgöngur og mat var lagt á hvernig mismunandi uppbyggingaráform geta haft áhrif á samgöngur sveitarfélagsins til framtíðar. Litið var til vöru- og farþegaflutninga auk þess að sérstök áhersla var lögð á umferð og samgöngumál tengd höfninni, s.s. gatna- og stígatengingar.

Unnin var greining á samgöngum til og frá höfninni sem og á umferð innan hafnarinnar og litið til margvíslegra þátta, s.s. afkastagetu innviða m.t.t. þungaflutninga, áhrif samspils mismunandi umferðar á umferðaröryggi og mögulega truflun vegna umferðar á byggð og aðra nærliggjandi starfsemi. Gerðar voru spár um aukningu í umferð út frá auknum umsvifum í höfninni, fjallað um hvernig sú aukning í umferð myndi hafa áhrif á samgöngur innan sveitarfélagsins o.s.frv. Litið var til þess að setja vistvænar samgöngur í forgrunn og samnýta innviði eins og kostur er, með það að markmiði að lágmarka mögulegt álag sem fylgir aukinni hafnarstarfsemi á samgönguinnviði.

Samfélagsleg og efnahagsleg áhrif hafnarinnar

Skilgreind voru drög að áfangaskiptu framtíðarskipulagi hafnarinnar til að mæta þörfum hafnarnotenda bæði til skemmri og lengri tíma. Einnig voru framkvæmdar kostnaðar-/ábatagreiningar vegna þeirra hugmynda sem til skoðunar voru um innviðauppbyggingu. Að auki var framkvæmd greining á innviðum ásamt efnahags- og félagslegum tækifærum tengdum höfninni.