Viðbrögð vegna umfjöllunar um EFLU

31.08.2016

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Undanfarið hefur verið töluverð umfjöllun vegna aðkomu EFLU að verkefni fyrir Isavia tengt Reykjavíkurflugvelli.

Viðbrögð vegna umfjöllunar um EFLU

Raunar hefur EFLA verið reglulega í sviðsljósinu vegna þessa máls allt frá því verkinu var skilað í lok árs 2014. Fyrirtækið hefur verið dregið inn í deilumál sem það er ekki aðili að. Vegna fjölmiðlaumfjöllunar og óvenju rætinna ummæla nýverið á samfélagsmiðlum vill félagið árétta eftirfarandi:

Isavia leitaði til EFLU með að vinna úr mæligögnum og leggja tölfræðilegt mat á nothæfi Reykjavíkurflugvallar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. EFLA vann verkefnið faglega, byggt á viðurkenndri aðferðafræði og þeim forsendum sem fyrir lágu frá Isavia. Niðurstöðum var skilað í tveimur skýrslum. EFLA tók ekki afstöðu til málefna Reykjavíkurflugvallar í þessum skýrslum. Í skýrslum EFLU felst engin afstaða til þess hvort ásættanlegt sé að loka flugbraut 06/24 út frá öryggissjónarmiðum, flugrekstrarsjónarmiðum eða öðrum þeim sjónarmiðum sem þar skipta máli.

Málefni Reykjavíkurflugvallar eru umdeild og varð EFLA í kjölfarið skotspónn hagsmunaaðila og einstaklinga í samfélaginu. Við því er lítið að segja svo fremi að umræðan sé uppbyggileg og heiðarleg. Umfjöllun um EFLU nýverið er hins vegar af öðrum toga. Þar er dylgjað um hagsmunapot og spillingu EFLU sem á sér enga stoð. Gengið er svo langt að hvetja fólk til að rægja orðspor og verk EFLU án nokkurrar málefnalegrar ástæðu.

Nú nýlega birtist grein á vefnum alltumflug.is, með fyrirsögn þess efnis að EFLA eigi lóð í Vatnsmýrinni, sem varð kveikja að frekari umræðu á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Enn á ný er þar reynt að gera aðkomu EFLU að verkefninu vegna Reykjavíkurflugvallar tortryggilega. EFLA gerði fyrir allnokkrum árum samkomulag við Vísindagarða HÍ um mögulega byggingu fyrir starfsemi EFLU á lóð Vísindagarða næst Háskólanum, gegnt Norræna húsinu. Önnur uppbygging á þeim reit sem um ræðir er þegar í gangi. Möguleg innkoma EFLU á reitinn er ekki með nokkrum hætti háð málefnum Reykjavíkurflugvallar.

EFLA er verkfræðifyrirtæki sem byggir tilveru sína á faglegri ráðgjöf og trausti. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 300 manns með afar fjölbreytta reynslu og þekkingu. EFLA starfar um allt land og erlendis. Fyrirtækið hefur lagt ríka áherslu á að þjóna vel samfélögum á landsbyggðinni eins og öflugar starfsstöðvar þar bera vott um. Starfsmenn EFLU vinna af heilindum, þeim er annt um sinn starfsheiður og eiga ekki skilinn tilhæfulausan róg.

Í umfjöllun fjölmiðla og samfélagsmiðla í dag er nánast ógerningur að bregðast við og leiðrétta allar fullyrðingar og rangfærslur sem fram koma. EFLA vill því hnykkja hér á að verkefni fyrirtækisins fyrir Isavia tengt Reykjavíkurflugvelli var unnið af fagmennsku af sérfræðingum fyrirtækisins og án nokkurra annarra hvata. Jafnframt tekur EFLA með þeirri vinnu enga afstöðu til pólitískra málefna Reykjavíkurflugvallar. Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum hefur EFLA bæði birt skýrslur sínar á vefsíðu EFLU og gefið nánari efnislegar skýringar og svör, og hvetur alla áhugasama til að kynna sér þær upplýsingar.

Efnislegar skýringar og svör