Viðurkenning fyrir lagnaverk

01.05.2018

Fréttir
Two men holding a framed certification together

Rúnar H Steinsen, vélaverkfræðingur, tekur við viðurkenningu fyrir hönd EFLU frá forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni.

EFLA hefur hlotið viðurkenninguna „Lofsvert lagnaverk 2017“ fyrir hönnun á lagna- og loftræsikerfi í höfuðstöðvum Marel í Garðabæ. Það er Lagnafélag Íslands sem veitir árlega viðurkenningar fyrir vel unnið lagnaverk.

EFLA sá um hönnun loftræsi- og lagnakerfa, brunahönnun, hljóðvistarhönnun og stýritækni lagna- og loftræsikerfa ásamt raflagnahönnun rafafls í öllum rafbúnaði. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti þeim sem komu að lagnaverkinu viðurkenningar við hátíðlega athöfn í Marel fimmtudaginn 26. apríl. Þeir sem fengu viðurkenningar ásamt EFLU fyrir voru G.I.G. Raflagnir, Raflagni, Snittvélin, Blikksamlagið og Apparat.

Fagmennska og útsjónarsemi í verkefninu

Í höfuðstöðvum Marel í Garðabæ, sem eru um 20.000 m2 að stærð, starfa um 640 manns. Ákveðið var að fara í endurbætur á lagna- og loftræsikerfi hússins ásamt því að yfirfara stýrikerfi og rafafl. Verkefnið var umfangsmikið og töluverðar áskoranir fylgdu því að setja upp endurbætt lagnakerfi í húsi sem komið var í notkun og starfsemi í fullum gangi. Í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram; „Allt hugvit og lausnir við útfærsluna voru gerðar af fagmennsku og útsjónarsemi og bar verkið í hvívetna þess merki.“

Fimmtu lagnaverðlaun EFLU

Lagnafélag Íslands hefur frá árinu 1990 veitt viðurkenningar fyrir lagnaverk hérlendis. Markmið með afhendingu verðlaunanna er að stuðla að þróun í lagnatækni, auka verktækni, efla gæðavitund og hvetja hönnuði og iðnaðarmenn til frekari dáða á sviði lagnamála. EFLA leggur mikinn metnað í að veita alhliða ráðgjöf og hönnun á lagnakerfum mannvirkja af öllum stærðum og gerðum. Þess má geta að EFLA hefur fjórum sinnum áður hlotið verðlaun fyrir lofsvert lagnaverk:

  • 2016 - Alvotech: Raflagnahönnun, brunahönnun, hljóðvistarhönnun og lýsingarhönnun
  • 2013 - Lýsi: Hönnun stjórnbúnaðar lagnakerfa og uppsetningu hússtjórnakerfis
  • 2012 - Menningarhúsið Hof: Lagnaverk og loftræstikerfi
  • 2008 - Grunnskólinn Ísafirði: Brunatæknilega hönnun

EFLA óskar öllum sem komu að verkefninu til hamingju með glæsilegan árangur og Marel með nýja lagna- og loftræsikerfið.