Viðurkenningarskjöldur vegna BREEAM sjálfbærnivottunar

30.04.2022

Fréttir
A man is handing over a bouquet of flowers to a women

Helga J. Bjarnadóttir ásamt Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala.

Fimmtudaginn 28. apríl var formlega afjúpaður viðurkenningarskjöldur vegna BREEAM umhverfisvottunar á sjúkrahótelinu við Hringbraut.

Viðurkenningarskjöldur vegna BREEAM sjálfbærnivottunar Sjúkrahótelsins afhjúpaður

Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá EFLU og BREEAM matsmaður, leiddi vinnuna við umhverfisvottunina fyrir hönd SPITAL hópsins svokallaða sem sá um skipulagsgerð og forhönnun sjúkrahótelsins. Hönnun og bygging hússins var vottuð samkvæmt alþjóðlega BREEAM umhverfisvottunarstaðlinum og hlaut húsið hæsta skor sem gefið hefur verið út á byggingu hér á landi.

„Sjúkrahótelið er fyrsta byggingin til að ná framúrskarandi (e. Excellent) einkunn (72,93% stiga) í Breeam sjálfbærnivottun á Íslandi. Nú er unnið að hönnun og byggingu meðferðakjarna og rannsóknarbyggingar sem einnig mun fara í slíka vottun,“ segir Helga J. Bjarnadóttir um þessa viðurkenningu.

„Vottunin er vitnisburður um að lögð hafi verið rík áhersla á marga þætti sjálfbærni sem skipta gesti og starfsmenn sjúkrahótelsins máli eins og góð innivist þ.e. loftgæði, lýsing og hljóðvist, örugga aðkomu og útisvæði fyrir notendur sem og vistvænar samgöngur og einnig ýmsa þætti sem skipta máli fyrir hagkvæman rekstur eins og orkunýtni byggingar og búnaðar og val á endingargóðum byggingarefnum og góð úrgangsflokkun,“ bætir Helga við.

Fulltrúi sjúkrahótels var hótelstjóri sjúkrahótelsins, Sólrún Rúnarsdóttir, sem afhjúpaði skjöldinn. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala, leiddi athöfnina og auk þess voru viðstaddir hluti starfsmanna Nýs Landspítala og fulltrúar úr stjórn félagsins ásamt öðrum gestum.

Starfsfólk EFLU óskar NLSH innilega til hamingju með BREEAM vottun sjúkrahótelsins.

A smiling woman in glasses holding a bouquet of flowers

Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá EFLU.