Viljayfirlýsing um að auka notkun á endurnýjanlegri orku

17.12.2018

Fréttir
A group of men in business attire standing and posing

Forsvarsmenn viljayfirlýsingarinnar komu saman í höfuðstöðvum Landsnets.

Síðastliðinn föstudag skrifuðu Landsnet, RARIK, HS Veitur og Félag Íslenskra Fiskmjölsframleiðenda (FÍF) undir viljayfirlýsingu um að stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku í fiskmjölsiðnaði. EFLA kom að málinu sem ráðgjafi og sat í nefnd fyrir hönd FÍF.

Sífellt fleiri sjávarútvegsfyrirtæki og hagsmunaaðilar í greininni láta sér loftslagsmálefni varða og vilja gera betur í umhverfismálum. EFLA hefur starfað töluvert með sjávarútveginum að slíkum verkefnum, bæði hvað varðar umhverfisvænar lausnir og raforkunotkun skipaflotans. Félag Íslenskra Fiskmjölsframleiðenda hefur unnið ötullega að því að stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku við vinnslu í fiskmjölsiðnaðinum og rituðu Landsnet, RARIK, HS Veitur og FÍF viljayfirlýsingu þess efnis föstudaginn 14.desember.

Umhverfisvænni orka

Með viljayfirlýsingunni lýsa Landsnet, RARIK og HS Veitur að þeir muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að því að flutnings- og dreifikerfið í heild nýtist sem best þannig að fjárfestingar allra aðila séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt. Á sama tíma mun FÍF stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera framleiðslu sína enn umhverfisvænni með því að nota endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa.

Nefndarþátttaka og ráðgjöf

EFLA kom að málinu með því að veita ráðgjöf og starfaði Brynjar Bragason, starfsmaður EFLU, í nefnd sem vann að viljayfirlýsingunni fyrir hönd FÍF. Með henni verður unnið að því að draga úr notkun á orkugjöfum sem hafa stærra kolefnisspor ásamt því að aðgerðirnar hafa jákvæð áhrif á aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum. Þess má geta að yfirlýsingin var unnin í framhaldi af sambærilegri yfirlýsingu milli FÍF og Landsvirkjunar sem undirrituð var í mars 2017.

Viljayfirlýsing - Fréttatilkynning

A group of men in business attire standing with colorful diagrams and indicator at the background

Frá vinstri: Júlíus Jónsson, Tryggvi Þór Haraldsson, Guðmundur Ingi Ásmundsson og Jón Már Jónsson skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að auka notkun á endurnýjanlegri orku í fiskmjölsiðnaði.