Vinningstillaga um nýja brú yfir Fossvog

08.12.2021

Fréttir
A modern sail boat sailing under a large bridge

Fossvogsbrú, ný vinningstillaga EFLU og BEAM.

EFLA, ásamt BEAM Architects, varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um nýja brú yfir Fossvog. Úrslitin voru kynnt á fundi fyrr í dag en þrjár tillögur komust áfram í lokaumferð samkeppnarinnar.

Vinningstillaga um nýja brú yfir Fossvog

Nýja brúin er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog.

Tillaga EFLU og BEAM ber heitið Alda og lokar 5 km hring um hið vinsæla útvistarsvæði sem Fossvogurinn er, og eykur enn á notagildi og aðdráttarafl svæðisins. Brúin þverar voginn í mjúkri legu og er eftirtektarverð þó að hún falli áreynslulaust að umhverfinu. Hún er forsenda fyrir Borgarlínunni og tákn nýrra tíma í samgöngum, útfærð með hagkvæmni, upplifun og þægindi notenda að leiðarljósi.

Hönnun brúarinnar er sveigjanleg og fellur vel að núverandi skipulagi á svæðinu og jafnframt að þeirri þróun sem vænta má til framtíðar. Hún svarar ákalli um metnaðarfullt og eftirtektarvert mannvirki sem fellur að einstöku náttúrulegu umhverfi Fossvogsins.

Sjá einnig frétt á vefsíðu Borgarlínu

Tillagan

Umsögn dómnefndar: "Mannvirkið er látlaust en jafnframt kröftugt. Brúin virkar einföld við fyrstu sýn en vex við nánari skoðun. Brúin fellur áreynslulaust að umhverfi sínu og mjúk bylgjulögun brúarinnar er áhugaverð skírskotun í öldur hafsins. Léttleiki brúarinnar keppir ekki við náttúrulegt umhverfi og skapar fallega sýn á sjóndeildarhringinn fyrir vegfarendur beggja vegna vogarins. Hönnun brúarinnar tekur mið af því að neðra byrði hennar er sýnilegt frá stórum hluta strandlengjunnar og er því hugsað sem önnur meginásýnd brúarinnar. Göngu- og hjólaleið undir brúna sunnan megin gefur sérstakt færi á þessu sjónarhorni.

Umferð fyrir alla samgöngumáta er greið og tengingar við brúarenda vel útfærðar. Aðgreining milli ólíkra samgöngumáta er vel l eyst, stuðlar að öryggi allra vegfarenda og aðgengi fyrir alla. Kostur er að hjólandi vegfarendur geta valið milli þess að hjóla hraðar eftir stíg vestan megin sem er eingöngu fyrir hjól en austan megin er breiður stígur fyrir gangandi vegfarendur og hægari hjólaumferð.

Við göngustíg austan megin á brú eru áhugaverðar hugmyndir um áningarstaði við „Álfasteina” sem stinga sér upp úr brúargófinu þar sem vegfarendum gefst færi á að njóta útsýnis yfir voginn og niður á hafflötinn. Tillagan sýnir góða heildræna nálgun gagnvart öllum þáttum tæknilegrar hönnunar. Framsetning tillögunnar er mjög skýr og öllum þáttum vel lýst í máli og myndum. Efnisval brúarinnar er vel rökstutt út frá endingu og viðhaldi. Lýsingarhönnun er sannfærandi og samræmist vel formi brúarinnar."