Vistferilsgreining á raforkuflutningskerfi Landsnets

27.02.2019

Fréttir
High voltage power line at the sunset

Háspennulínur á Hellisheiði baða sig í sólarlaginu.

EFLA hefur greint umhverfisáhrif flutningskerfis raforku á Íslandi með aðferðafræði vistferilsgreiningar. Greiningin var unnin fyrir Landsnet og er byggð á öllum flutningsmannvirkjum fyrirtækisins; loftlínum, jarðstrengjum og tengivirkjum. Niðurstöður sýna meðal annars að kolefnisspor íslenska raforkuflutningskerfisins er 0,9 g CO2 ígildi á hverja flutta kWst. Af þessum 0,9 grömmum er tæplega helmingur tilkomin vegna framleiðslu á orku sem tapast í flutningskerfinu.

Umhverfisáhrif raforkuflutnings á Íslandi greind í víðu samhengi

Með aðferðafræði vistferilsgreiningar er hægt að meta þau áhrif sem flutningskerfið hefur á umhverfi sitt yfir allan vistferilinn, þ.e. frá því að auðlindir eru teknar úr jörðu þangað til komið er að lokum líftíma kerfisins og byggingarhlutum fargað eða komið í endurvinnslu. Metnar eru ólíkar tegundir umhverfisáhrifa með vistferilsgreiningu en auk losunar gróðurhúsalofttegunda má einnig meta áhrif á borð við eyðingu náttúruauðlinda og myndun svifryks.

Kolefnisspor raforkuflutnings er 0,9 g CO2-ígilda á hverja flutta kWst

Kolefnisspor íslenska raforkuflutningskerfisins er 0,9 CO2-ígildi á hverja flutta kWst. Tæplega helmingur tilkomin vegna framleiðslu á orku sem tapast í flutningskerfinu, en næst stærsti hluti kolefnissporsins er losun SF6 í tengivirkjum, sem myndar um 15% kolefnissporsins. Önnur losun er tilkomin vegna byggingarhluta sem mynda flutningskerfið og eiga leiðarar þar stærsta hlutdeild eða tæp 13%. Aðrir byggingarhlutar sem valda töluverðum hluta heildarlosunar gróðurhúsaloftegunda eru möstur og tengivirki.

Niðurstöður kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu

Greiningin er byggð á öllum flutningslínum Landsnets sem eru reknar á 66 kV, 132 kV og 220 kV spennu, alls yfir 3.300 km flutningslína og þar af eru jarðstrengir um 245 km að lengd. Heildarflutningur um kerfið er á milli 17 og 18 TWst árlega og fer vaxandi.

Niðurstöðurnar sem og allar upplýsingarnar sem fram koma í greiningunni nýtast nú þegar í umbótaverkefnum Landsnets, en fyrirtækið var aðili að sameiginlegri yfirlýsingu Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, um að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Landsnet hefur einnig nýtt sér niðurstöður þessarar vinnu m.a. við samanburð valkosta í kerfisáætlun og hafa niðurstöður greiningarinnar sömuleiðis verið kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu CIGRÉ.

Electrical transmission towers against a mountainous backdrop

Greiningin er byggð á yfir 3.300 km flutningslínum Landsnets.

Tækifæri til að draga úr kolefnisspori raforkuflutnings

Í uppbyggingu og rekstri flutningskerfisins felast mörg tækifæri til að lágmarka umhverfisáhrif og ekki síst losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að halda flutningstöpum í lágmarki og að draga úr SF6 leka í kerfinu eins og kostur er. Þannig geta aðgerðir á borð við að minnka SF6 leka úr 0,4% á ári niður í 0,2% á ári minnkað heildarkolefnisspor flutningskerfisins um 7%.

Draga má úr gróðurhúsaáhrifum leiðara, mastra og jarðstrengja með vistvænum innkaupum, þ.e. með því að sjá til þess að keypt sé frá birgjum sem tryggja lágt kolefnisspor á vörunni. Einnig eru tækifæri til að draga úr kolefnissporinu með ábyrgri notkun jarðefnaeldsneytis eða notkun á umhverfisvænni orkugjöfum á öllum vistferlinum, sérstaklega þegar byggingarframkvæmdir eiga sér stað. Að lokum sést vel í þessari greiningu hvernig öll endurvinnsla hráefna að líftíma loknum skilar sér í ávinningi fyrir umhverfið.

A diagram focusing on circular process featuring stages of EFLA environmental related process

Myndin sýnir vistferil mannvirkis.

Öflug aðferð til að draga fram upplýsingar um umhverfisáhrif

Verkfæri á borð við vistferilsgreiningar geta nýst íslenskum fyrirtækjum eða stofnunum sem verkfæri í umhverfisstjórnun, til ákvarðanartöku um aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum, hvort sem um er að ræða í hönnun, undirbúningi framkvæmda, við innkaup eða í rekstri.

Niðurstöður má einnig nýta í upplýsingamiðlun um umhverfisáhrif til hagsmunaaðila og almennings, hvort heldur sem er á formi umhverfisyfirlýsingar (e. EPD) eða upplýsingagjafar um kolefnisspor og önnur umhverfisáhrif raforkuflutnings.

Nánari upplýsingar um þjónustu EFLU á sviði kolefnisspors og vistferilsgreininga má skoða á vefnum.

Skýrslan

Niðurstöður vistferilsgreiningar fyrir flutningskerfi raforku