Vök Baths fær Steinsteypuverðlaunin

10.02.2023

Fréttir
Five individuals standing together, holding certificate and bouquet of flower

Óli Grétar Metúsalemsson, byggingarverkfræðingur EFLU á Austurlandi, tók við Steinsteypu-verðlaununum 2023 fyrir hönd EFLU.

Vök Baths fengu í dag Steinsteypuverðlaunin 2023, en verðlaunin voru veitt á Steinsteypudeginum sem haldinn var á Grand Hótel í dag.

Vök Baths

Verðlaunin voru veitt Basalt arkitektum , sem voru aðalhönnuðir hússins, EFLU, sem sá um alla verkfræðihönnun, VHE , sem voru verktakar við uppsteypu hússins og BM Vallá , sem sá um steypuframleiðslu.

Óli Grétar Metúsalemsson, byggingarverkfræðingur hjá EFLU á Austurlandi, tók við verðlaununum fyrir hönd EFLU en hann stjórnaði hönnun steyptra eininga í verkinu. Vök baths eru staðsett við bakka Urriðavatns sem er rétt fyrir utan Egilsstaði. Byggingin er yfir 1000 fermetrar þ.m.t. baðsvæði og veitingastaður. Umhverfi staðarins er sérstakt þar sem Vakirnar, heitar náttúrulaugar, fljóta úti í vatninu.

Við hönnun Vök Baths var lögð áhersla á að raska sem minnst umhverfinu við Urriðavatn. Byggingarefnin eru náttúruleg og vistvæn og er timbrið og steypan unnin á svæðinu. Nánast allt steypuvirki er forsteyptar einingar sem framleiddar voru í verksmiðju VHE sem staðsett er í aðeins kílómeters fjarlægð frá Vök Baths.

Steinsteypuverðlaunin eru veitt fyrir mannvirki sem einnkennast af frumlegri og vandaðri notkun á steinsteypu. Þau voru fyrst veitt árið 2010 og meðal þeirra sem hafa fengið verðlaunin áður eru Bláa lónið Retreat, tengibygging íþróttamannvirkja í Grindavík, endurgerð Nýja Bíós og göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut.

Four men standing together for a photo, dressed in business casual attire

Leiðarljós við val sigurvegara steinsteypuverðlaunanna:

  • Sýni steinsteypu á áberandi hátt.
  • Sé framúrskarandi vegna arkitektúrs, verkfræðilegra lausna, gæði steinsteypu og handverks.
  • Búi yfir frumleika og endurspegli þekkingu í meðferð og notkun steinsteypu.
  • Auðgi umhverfið, innberi gæði, glæsileik og nytsemi og sýni augljósan metnað í samhengi við umhverfi sitt.
  • Sé byggt á síðustu fimm árum og í notkun.
A modern geothermal bath featuring wooden walkways and pools over a body of water

Mynd: Vök Baths.