EFLA forhannar landeldisstöð í Vestmannaeyjum

04.10.2022

Fréttir
A series of rounded barrel shaped structures on a coastline set against mountain backdrop

EFLA hefur gengið frá samningi við Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS) um forhönnun 10.000 tonna landeldisstöðvar fyrir lax við Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum. Vinna við forhönnunina hófst í liðinni viku og er áætlað að henni ljúki í desember á þessu ári. Stefnt er að því að framkvæmdir við eldistöðina geti hafist sumarið 2023.

EFLA forhannar landeldisstöð í Vestmannaeyjum

Forhönnunin felur m.a. í sér þrívíða teiknivinnu af eldiskerjum, lögnum, raflögnum, helstu mannvirkjum og tæknikerfum ásamt afmörkuðum hönnunarútfærslum og valkostagreiningum. Auk þess felur forhönnunin í sér útfærslu og skilgreiningu á sjóveitu, fráveitu, rafveitu og meðferð úrgangs frá stöðinni. EFLA mun einnig staðsetja og hæðarsetja helstu mannvirki og tæknikerfi ásamt því að skilgreina og teikna inn lagnaleiðir raflagna, sjólagna, frárennslislagna, súrefnislagna, fóðurlagna og annarra veitukerfa innan lóðarinnar.

EFLA mun einnig sjá um BIM-stjórnun verkefnisins sem felur í sér samræmingu á þrívíðum líkönum, árekstrarprófanir og utanumhald um verkefnadrif verkefnisins. Verkefni BIM-stjóra er að setja upp BIM360 verkefnavef fyrir verkefnið og BIM-handbók. Þetta er gert til að tryggja að verkkaupi fái þau gæði sem þar eru fyrirskrifuð frá hönnuðum, gera árekstrargreiningar og aðgangsstýra verkefnavef ásamt því að setja upp og stýra rýniferlum.

Mikil reynsla á þessu sviði

EFLA hefur fylgt þessu verkefni frá fyrstu stigum, allt frá viðskiptaþróun og þróun hugmyndar árið 2019 til viðskiptaáætlunar sem var gerð ári síðar. EFLA framkvæmdi umhverfismat fyrir verkefnið og í framhaldi að því hófst frumhönnun sem var notuð sem forsendur fyrir umhverfismatið og skipulagsvinnu. Það sem af er þessu ári hefur EFLA unnið mat á stofnkostnaði stöðvarinnar ásamt mati á umhverfisáhrifum.

EFLA hefur unnið flókin hönnunarverkefni í öðrum geirum en fiskeldi og nýtur reynslu frá slíkum verkefnum, þ.m.t. stækkun hjá Isavia og einnig uppsjávarfisksfrystihúss ESKJU á Eskifirði. Í landeldi hefur EFLA m.a. séð um BIM-stjórnun og samræmingu við byggingu landeldisstöðvar Landeldis ehf. í Þorlákshöfn auk þjónustu við hönnun þeirrar stöðvar sem nú er í byggingu. Einnig hefur EFLA komið að hönnun og þjónustu við stjórnkerfi í landeldisstöðvum Samherja fiskeldis.