Fréttir


Fréttir

EFLA hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

þekkingarfyrirtæki, þjóðhagsleg, gjaldeyrisöflun, alþjóðleg, viðskipti, sala, markaðssetning, hugvit, þekking, Noregur, Svíþjóð, Pólland, Frakkland, Þýskaland, Skotland, Tyrklandi, orkuflutningsmannvirki

28.6.2022

EFLA hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2022 en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir stuttu. Það var Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, sem veitti verðlaunum viðtöku en auk hans var fjöldi starfsfólks EFLU viðstaddur.

  • utflutningsverdlaun-001
    Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, tekur við Útflutningsverðlaununum af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslandi.

Útflutingsverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1989 og er EFLA fyrsta þekkingarfyrirtækið á sviði verkfræði til að hljóta þau. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Alþjóðleg EFLA

EFLA hefur lagt áherslu á alþjóðlega þróun með útflutningi á hugviti og þekkingu í á annan áratug. Þar hafa markmiðin verið að renna fleiri stoðum undir starfsemina, dreifa áhættu í rekstri, nýta þekkingu og hugvit sem tækifæri til vaxtar, skapa fjölbreyttari tækifæri fyrir starfsfólk og skapa áhugaverðari starfsvettvang.

EFLA er með fyrirtæki og starfsemi erlendis í sjö þjóðlöndum, EFLA AS í Noregi, EFLA AB í Svíþjóð, ISPOL í Póllandi, HECLA í Frakklandi, IPU Berlín í Þýskalandi, KSLD í Skotlandi og RTE í Tyrklandi. Í dótturfélögum EFLU erlendis starfa nú um 90 manns. EFLA hefur að auki unnið að verkefnum á fjölmörgum sviðum í yfir 40 þjóðlöndum.

Veigamesta útflutningsafurð EFLU er ráðgjöf á sviði undirbúnings, hönnunar og verkefnastjórnunar við uppbyggingu orkuflutningsmannvirkja, þ.e. háspennulína, jarðkapla og spennustöðva. Þar að auki eru umsvif EFLU í samgöngu- og byggingarverkefnum töluverð í Noregi. Starfsmenn EFLU búa einnig yfir sterkri sérhæfingu í stýringum og sjálfvirkni í iðnaði og vinna að staðaldri að verkefnum fyrir alþjóðleg iðnaðar- og orkufyrirtæki á því sviði víða um heim. Á síðasta áratug hefur EFLA tekið þátt í verkefnum er lúta að undirbúningi og þróun jarðvarmavirkjana og veitna víða um heim.

Næstu skref

Á næstu misserum verður unnið að aukinni samvinnu, samræmingu og samlegð í alþjóðlegri starfsemi EFLU til að styrkja enn frekar grundvöllinn í áframhaldandi sókn. Horft verður til þeirra miklu tækifæra sem þegar eru fyrir hendi með núverandi vörur og markaði. Jafnframt verða skoðuð tækifæri með núverandi vörur á nýjum mörkuðum.

Orkuskiptin sem framundan eru munu krefjast mikillar og krefjandi alþjóðlegrar samvinnu ef árangur á að nást, og hyggst EFLA vera þar virkur þátttakandi í þróun nýrrar virðiskeðju orkuskiptanna í alþjóðlegu umhverfi. Þar munu áherslur EFLU til margra ára í grænum lausnum og samfélagslegri ábyrgð leika lykilhlutverk.