Fréttir


Fréttir

EFLA kaupir Tækniþjónustu Vestfjarða

Landsbyggð, Vesturland, tækniþjónusta, verkfræði, ráðgjöf

6.7.2021

EFLA og Tækniþjónusta Vestfjarða ehf. hafa undirritað samning um að EFLA kaupi allt hlutfé Tækniþjónustunnar. Sameiningin mun styrkja áherslu EFLU á nærþjónustu á landsbyggðinni. 

  • Sæmundur Sæmundsson og Samúel Orri Stefánsson
    Sæmundur Sæmundsson og Samúel Orri Stefánsson

Tækniþjónusta Vestfjarða var stofnuð 1973 og hefur starfað óslitið síðan með aðsetur á Ísafirði. Fyrirtækið hefur unnið að verkefnum víða á Vestfjörðum, sem og í öðrum landshlutum. Verkefni hafa aðallega verið á sviði verkfræðihönnunar mannvirkja, gerð kostnaðaráætlana, tjónamats, mælinga og útsetninga, gerð eignaskiptasamninga og útboðsgagna ásamt umsjón og eftirliti með útboðsverkum.

Starfsstöð Tækniþjónustunnar ÍsafirðiStarfsstöð Tækniþjónustu Vestfjarða við Aðalstræti 26, Ísafirði. 

Samúel Orri Stefánsson, framkvæmdastjóri Tækniþjónustunnar segist afar ánægður með kaup EFLU á fyrirtækinu. Með þeim verði hægt að bjóða Vestfirðingum enn öflugri verkfræði- og tækniþjónustu á breiðari grundvelli sem nær til samfélagsins alls.

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, fagnar kaupunum. Það sé stefna fyrirtækisins að bjóða öfluga þjónustu á landsbyggðinni sem byggi á góðri samvinnu allra starfsstöðva. Kaupin á Tækniþjónustu Vestfjarða falli einstaklega vel að þeirri stefnu og sé liður í að styrkja nærþjónustu EFLU um allt land. Fyrirtækin hafi átt í mjög góðu samstarfi um árabil og því hafi kaupin verið eðlilegt næsta skref. 

Á Íslandi eru höfuðstöðvar félagsins að Lynghálsi Reykjavík, en EFLA heldur úti starfsstöðvum á Selfossi, Hellu, Reykjanesbæ, Hvanneyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Þórshöfn, Húsavík, Akureyri og nú á Ísafirði.