Fréttir


Fréttir

EFLA miðlar þekkingu um rafeldsneyti

Orkuklasinn, orkuskipti, vetni

9.6.2021

Vetni og rafeldsneyti hefur mikið verið til umræðu í tengslum við orkuskipti á Íslandi, en orkuskipti í samgöngum eru háð framleiðslu rafeldsneytis innanlands. Að því tilefni hélt Orkuklasinn málþing um það efni og var sérfræðingur EFLU með erindi á staðnum.

  • rafeldsneyti vetni orkuskipti
    Heimsmynd framleiðslu og notkunar rafeldsneytis

EFLA hefur tekið þátt í verkefnum um rafeldsneyti og orkuskipti í samgöngum, framleiðslu, flutning og geymslu. Verkefnin hafa verið hérlendis og einnig erlend samstarfsverkefni. EFLA hefur þannig fylgst með alþjóðlegri þróun og þeim kröftum sem knýja þá þróun áfram og byggt upp víðfeðma þekkingu um þetta efni. EFLA er því í fararbroddi ráðgjafar- og þekkingarfyrirtækja í þessum málaflokki.

Á málþinginu, sem haldið var þann 3. júní s.l., hélt Jón Heiðar Ríkharðsson, vélaverkfræðingur og einn af sérfræðingum EFLU um þessi mál, erindið „Útflutningur á rafeldsneyti - Lykill að orkuskiptum og orkuöryggi“. Í erindinu er horft til þróunar á framleiðslu rafeldsneytis í heiminum næstu áratugina og á hvaða svæðum aðstæður til framleiðslu endurnýjanlegrar orku og rafeldsneytis eru hvað hagstæðastar.

Eyðimerkursvæðin eru sérstaklega dregin fram en einnig þau svæði sem búa bæði við sól og vind en þau svæði munu njóta ákveðins samkeppnisforskots í þessu samhengi. Miðað við þær staðreyndir þá er ekki sjálfgefið að útflutningur rafeldsneytis frá Íslandi verði samkeppnisfær og talsverð áskorun að standast þá samkeppni.

Ákveðnar áherslur ásamt séríslenskum aðstæðum eru þó líklegar til að tryggja hagkvæma framleiðslu á rafeldsneyti og þar með samkeppnishæfni Íslands. Þar má helst nefna miðlæga framleiðslu og stærðarhagkvæmni, bætta nýtingu núverandi raforkukerfa og aðlögun regluverks að nýjum veruleika orkumála.

Kynnt voru til sögunnar nokkur verkefni sem gætu tengst slíkri uppbyggingu og útflutningi rafeldsneytis og hvernig slík uppbygging gæti stutt við lægra verð á rafeldsneyti innanlands með hagkvæmari framleiðslu og skilvirkara dreifkerfi.

Ef þessi samkeppnishæfni er tryggð með sjálfbærum hætti mun allt refeldsneyti fyrir þyngri flutningatæki, skip og flugvélar verða framleitt innanlands á samkeppnishæfu verði. Það mun þannig koma í veg fyrir innflutning á rafeldsneyti þegar kemur að orkuskiptum í flutningageiranum. Þannig verður allt eldsneyti á samgöngutæki framleitt innalands sem tryggir orkuöryggi landsins og þar með matvælaöryggi þar sem fiskveiðar, matvælaframleiðsla og flutningar verða ekki háð innfluttu eldneyti.

Hér er um mikla áskorun að ræða sem kallar á mikla uppbyggingu orkuinnviða. Hér er því mikilvægt að sameinast um að leggja á árarnar til að þessi þriðja bylgja orkuiðnaðar og orkuskipta verði að veruleika.

Erindið

Útflutningur á rafeldsneyti – Lykill að orkuskiptum og orkuöryggi