EFLA verður aðaleigandi HECLA SAS

22.06.2022

Fréttir
A modern building with vertical lines on its facade with EFLA company logo

EFLA þekkingarfyrirtæki verður aðaleigandi franska verkfræðifyrirtækisins HECLA SAS eftir að gengið var frá kaupum EFLU á eignarhlutum Landsvirkjunar, í gegnum dótturfélagið Landsvirkjun Power, og Jean Chauveau í fyrirtækinu. Þannig eignast EFLA 96,5% hlut í félaginu, en tveir lykilstjórnendur fyrirtækisins eiga samtals 3,5%.

EFLA verður aðaleigandi HECLA SAS

HECLA SAS, sem er staðsett í París, sérhæfir sig í undirbúningi og hönnun orkuflutningsmannvirkja. Fyrirtækið var stofnað árið 2001 þegar fyrir lágu veruleg verkefni í uppbyggingu orkuflutningskerfa í Frakklandi eftir miklar skemmdir í óveðri um síðustu aldamót. Línuhönnun og Afl, sem síðar urðu hluti af EFLU, stofnuðu fyrirtækið ásamt Landsvirkjun og Jean Chauveau, sem verið hefur framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi. Stofnendur félagsins hafa verið bakhjarlar þess alla tíð síðan, og byggt á íslenskri þekkingu og reynslu við þróun þess.

Alþjóðleg þróun EFLU

Kaupin á HECLA er liður í áframhaldandi alþjóðlegri þróun EFLU á sviði orkuflutningsmannvirkja. Fyrirtækið er leiðandi á þessu sviði á Íslandi og Norðurlöndunum með fyrirtæki í Noregi (EFLA AS) og Svíþjóð (EFLA AB). Þá er EFLA eigandi fyrirtækja í Póllandi (ISPOL) og Frakklandi (HECLA), auk þátttöku í fyrirtæki í Þýskalandi (IPU Berlín).

Þess utan hefur EFLA í gegnum tíðina unnið að veigamiklum verkefnum á sviði orkuflutningsmannvirkja víða um heim. Ljóst er að mikil tækifæri verða á þessu sviði næstu áratugina með breytingum á skipan orkumála heimsins. Í alþjóðlegri samstæðu EFLU starfa nú um 80-90 sérfræðingar að staðaldri í orkuflutningsverkefnum.

Hæsta einkunn í gæðamati

Framundan er fyrirséð gífurleg uppbygging og þróun á orkuflutningskerfum Frakklands ekki síst tengt orkuskiptunum, og býr HECLA yfir verðmætri sérhæfingu í þeirri þróun. Hjá HECLA starfa nú 12 manns, og er stefnt að markvissum vexti félagsins í samræmi við tækifærin framundan.

Stærsti viðskiptavinur HECLA er franska landsnetið RTE (sbr. Landsnet á Íslandi). HECLA leiðir svokallaðan HEI hóp þriggja fyrirtækja, sem hafa rammasamning við RTE til ársins 2025 með mögulegri framlengingu. HEI hópurinn hefur stærstu hlutdeild allra þátttakenda í þessum rammasamningi, sem snýst um hönnun, eftirlit og verkefnastjórnun við uppbyggingu háspennulína og jarðkapla í orkuflutningskerfinu vítt og breitt um Frakkland. Nýlega gaf RTE út birgjamat þar sem HEI hópurinn og HECLA fengu hæstu einkunn allra þátttakenda í gæðamati.

Nýir stjórnendur

Jean Chauveau lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri HECLA SAS, eftir farsælt starf í yfir 20 ár við uppbyggingu fyrirtækisins. Við þessi tímamót hverfur Landsvirkjun einnig úr félaginu, en Landsvirkjun hefur verið afar mikilvæg kjölfesta í þróun HECLA. Nýr framkvæmdastjóri HECLA er Christophe Baldet, og faglegur stjórnandi Guy Joubert. Báðir hafa þeir starfað í HECLA í yfir 15 ár.

EFLA vill koma á framfæri kærum þökkum til Landsvirkjunar og fulltrúa fyrirtækisins í HECLA í gegnum tíðina, svo og til Jean Chauveau, fyrir ánægjulegt, traust og árangursríkt samstarf við uppbyggingu og þróun HECLA.