Fjórir styrkir úr Aski

23.02.2023

Fréttir
A large group of people holding bouquet of flower and certificates suggesting a celebration

Fjögur verkefni frá starfsfólki EFLU fengu styrki úr Aski – mannvirkjasjóði en alls skiptu 39 verkefni með sér 95 milljónum króna sem var úthlutað að þessu sinni. Styrkirnir eru veittir til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar.

Þau fjögur verkefni EFLU sem fengu styrki voru eftirfarandi:

  • Guðni Jónsson, byggingarverkfræðingur á byggingasviði EFLU, fékk styrk fyrir verkefnið Samantekt leiðbeininga við verklag ytra eftirlits með steypustöðvum.
  • Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur á samfélagssviði EFLU, fékk styrk fyrir verkefnið

Líftími byggingarefna á Íslandi

  • Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur á byggingasviði EFLU, fékk styrki fyrir verkefnið Rakaástand bygginga, úttektir og mat á óhollustu, myglu og efnagjöf og fyrir verkefnið

Loftskipti og loftræsting í grunnskólum ásamt Böðvari Bjarnasyni, byggingartæknifræðings á byggingasviði EFLU

Styrkirnir eru veittir í fimm flokkum en áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til að lækka kolefnisspor. Við hverja úthlutun er horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Askur – mannvirkjarannsóknasjóður var stofnaður árið 2021 og er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhentu styrkina við athöfn í húsakynnum HMS.