Fréttir


Fréttir

Hæsta einkunn í hæfnismati

30.4.2013

EFLA verkfræðistofa hefur nú undirritað sjötta rammasamninginn við norsku vegagerðina Statens Vegvesen. Hefur EFLA þá gert rammasamninga við Statens Vegvesen á fjórum af fimm svæðum Noregs á fjölbreyttum sviðum samgönguverkefna.
  • Samgönguverkefni í Noregi

EFLA fær hæstu einkunn í hæfnismati hjá norsku vegagerðinni.

Í nýfrágengnum rammasamningi við Statens Vegvesen á miðsvæði Noregs fær EFLA framúrskarandi umsögn í hæfnismati og hæstu einkunn af bjóðendum sem eru meðal annars öll helstu verkfræðifyrirtæki Noregs. EFLA er þegar að vinna að verkefnum á miðsvæði Noregs, m.a. hönnun á tveimur brúm rétt norðan Þrándheims sem eru 94 metra og 40 metra langar.

EFLA hefur á undanförnum árum unnið fjölmörg verkefni fyrir vegagerðina í Noregi um allt landið og áunnið sér traust meðal verkkaupa. Statens Vegvesen er orðinn meðal stærstu viðskiptavina EFLU. ?Við höfum lagt mikla áherslu á að skapa okkur sterka stöðu í samgönguverkefnum í Noregi og því er mikilvægur áfangi fyrir okkur að fá svo góða umsögn hjá þessum lykilviðskiptavini. Það hvetur okkur enn frekar til dáða" segir Guðmundur Þorbjörnsson framkvæmdarstjóri EFLU verkfræðistofu.

Ný og fjölbreytt verkefni EFLU í Noregi.

Mikil aukning hefur orðið hjá EFLU í verkefnum í Noregi á undanförnum misserum. EFLA AS er dótturfélag EFLU í Osló, þar sem starfa 11 manns. Það félag hefur sérstaklega áunnið sér sess í ráðgjöf við háspennulínur og er nú að breikka verksvið sitt sem kjölfesta í viðveru EFLU í Noregi. Mikilvægasti viðskiptavinur EFLU AS er Statnett, sem er samsvarandi Landsneti á Íslandi. Önnur verkefni EFLU í Noregi, sem eru á fjölbreyttum sviðum verkfræði og tækni, eru að langmestu leyti unnin á Íslandi.

"Það sem af er árinu hefur EFLA fengið 20 ný verkefni frá Noregi sem unnin eru á Íslandi, til samanburðar við 20 verkefni allt árið 2012. Um mjög fjölbreytt verkefni er að ræða sem yfir 40 sérfræðingar á öllum sviðum EFLU á Íslandi taka að staðaldri þátt í. Meðal nýrra verkefna má nefna áhættu- og áfallaþolsgreiningu vegna lengingar á Óperugöngunum (Operatunnelen) sem eru jarðgöng í miðborg Osló. Óperugöngin eru ein lengstu og fjölförnustu veggöng í Osló, um 6 kílómetrar að lengd með umferð nálægt 90.000 ökutækjum á sólarhring.

Í byrjun árs stofnaði EFLA félagið Prosjektil-EFLA í Stavanger með verkfræðistofunni Prosjektil og starfa nú þegar 6 sérfræðingar hjá hinu nýja fyrirtæki. Fyrirtækið mun einbeita sér að verkefnum fyrir sveitarfélög og opinber fyrirtæki á Rogalandssvæðinu. Að auki eru þessa dagana 4 starfsmenn EFLU að störfum í Stavanger í samvinnu við norska fyrirtækið Advance Control við forritun á hugbúnaði fyrir olíuborpalla, en þjónusta við olíuiðnaðinn jókst mjög á árinu 2012.

noregur oll verkefni