Fréttir


Fréttir

Heiðursverðlaun Stjórnvísi 2021

Guðmundur Þorbjörnsson, Framkvæmdastjóri, Viðurkenning

27.4.2021

Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, hlaut í gær heiðursverðlaun Stjórnvísi fyrir framlag sitt til stjórnunar á Íslandi. Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru veitt árlega þeim sem þykja hafa skarað fram úr á sviði stjórnunar.

  • Stjórnunarverðlaun 2021
    Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Mynd: Stjórnvísi.

Guðmundur hefur verið framkvæmdastjóri EFLU frá upphafi, árinu 2008, og undir hans stjórn hefur fyrirtækið tvöfaldast að stærð og þar starfa um 400 starfsmenn. Hann hóf starfsferil sinn eftir háskólanám árið 1983 hjá Línuhönnun, starfaði hjá Eimskip frá 1993 en sneri aftur til Línuhönnunar 2005 sem framkvæmdastjóri. Guðmundur hefur setið í stjórn fjölmargra fyrirtækja hér á landi auk þess að eiga að baki farsælan feril í knattspyrnu. 

Framsýnn leiðtogi

Guðmundi er lýst sem framsýnum leiðtoga sem hefur lagt sig fram við að skapa skilyrði innan fyrirtækisins þannig að starfsfólk hans hafi umboð til athafna, geti vaxið og náð árangri. Hann samgleðst sigrum og styður vel við þegar á móti blæs.

Sterk liðsheild

Stjórnunarverðlaun 2021Við móttöku verðlaunanna sagði Guðmundur að hann væri stoltur og þakklátur fyrir þessi verðlaun. Það sem hefur einkennt starfsferilinn og skipt hann mestu máli er samferðarfólkið „Ég hef verið gríðarlega gæfuríkur með mitt samferðarfólk og þetta fólk hefur stutt mig, kennt mér og höfum við unnið vel saman. Þetta er fjölbreyttur hópur sem ég er enn að læra af og því virði sem samskiptin við þennan hóp hefur leitt af sér. Ég gerði mér snemma grein fyrir verðmæti sterkrar liðsheildar, bæði til að ná árangri og varðandi það að tilheyra hóp. Ég hef haft það að leiðarljósi í mínu starfi – að byggja upp sterka liðsheild þar sem hver hefur sitt hlutverk, allir eru jafnir og framlag allra skiptir máli.“  segir Guðmundur.

Samstarfsfólk Guðmundar hjá EFLU óskar honum til hamingju með viðurkenninguna og frábært samstarf en þess má geta að Guðmundur hefur ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri og taka við nýju hlutverki hjá EFLU.

Stjórnunarverðlaun 2021 Veitt voru verðlaun í þremur flokkum, auk þess sem heiðursfélagi var útnefndur. Mynd: Stjórnvísi.

Frétt Stjórnvísi um Stjórnunarverðlaun 2021.