Fréttir


Fréttir

Jarðgangagerð hafin í Dýrafjarðargöngum

18.9.2017

Jarðgangagerð í Dýrafjarðargöngum hófst þann 14. september þegar Jón Gunnarsson samgönguráðherra sprengdi fyrsta formlega skotið í göngunum. 

Göngunum er ætlað að bæta vegasamband á milli Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslu og mun framkvæmdin stytta Vestfjarðarveg um 27,4 km.

  • Dýrafjarðargöng

Dýrafjarðargöng verða um 5,6 km, þar af eru 5,3 km í bergi, en 300 m í vegskálum.  Jarðgangagerð er nú hafin frá Arnarfirði, en aðeins verður grafið frá annari hliðinni í einu. Gert er ráð fyrir að grafa um 4 km frá Arnarfirði og verður restin grafin frá Dýrafirði.

Dýrafjarðargöng leysa af hólmi núverandi veg sem liggur um Hrafnseyrarheiði, en sá vegur ásamt Dynjandisheiði sem er sunnan við göngin, eru lokaðir að yfir vetrartímann. Yfir framkvæmdatímann í vetur er gert ráð fyrir að Dynjandisheiði verði opnuð mánaðarlega til birgðaflutninga en annars verða minni flutningar á efni og mannskap sjóleiðis frá Bíldudal.

EFLA sinnir framkvæmdaeftirliti

EFLA og Geotek sinna framkvæmdaeftirliti fyrir hönd Vegagerðarinnar, en fyrirtækin hafa áður unnið saman við gerð Bolungarvíkurganga og starfa nú saman í Vaðlaheiðargöngum. Á síðari stigum verksins koma einnig að eftirlitinu Tækniþjónusta Vestfjarða og Póllinn á Ísafirði.

Verktakar framkvæmdanna eru Metrostav frá Tékklandi og Suðurverk, en þessir verktakar eru um þessar mundir að ljúka við Norðfjarðargöng.  Í sumar hafa verktakarnir unnið í aðstöðusköpun, komið upp vinnubúðum, steypustöð og verkstæði og nú að lokinni vinnu við forskeringar er sjálf jarðgangagerðin loksins hafin.  

Áætluð opnun Dýrafjarðarganga er haustið 2020.

DýrafjarðargöngFjölmenni fylgdist með þegar fyrsta skotið var sprengt

Dýrafjarðargöng